(Október 2002)
Ég fór í fyrsta skipti á Flæmska hattinn haustið 1995. Var það að beiðni Snorra Snorrasonar eiganda Dalborgar, vegna stöðugra ásakana um að verið væri að klára rækjuna á svæðinu, allt væri í voða og nauðsynlegt væri að koma stjórn á veiðarnar. Leiðangurinn var farinn í nóvember og stóð í 5 vikur. Ég skrifaði skýrslu um niðurstöður sem voru á þann veg að stofninn hefði það gott og það væri alveg óhætt að halda áfram að veiða. Skýrsluna má finna hér (pdf 200 Kb) , auk Viðauka (50 Kb pdf) við skýrsluna þar sem eru myndir af aflabrögðum og staðsetningum veiðistaða Dalborgar allt árið 1995.
Stjórnvöld og Hafró tóku ekki mark á skýrslu minni og kvóti var settur á veiðar íslendinga árið 1997. Urðu nokkrar deilur um málið og skrifaði ég greinar í Fiskifréttir og Morgunblaðið þar sem kvótasetningin var talin óþörf. Þessi gjörningur leiddi til þess að frumkvöðlarnir urðu að hætta veiðum og rækjukvóti á Flæmska hattinum varð að gjaldmiðli.
Nýjast í málinu er svo (óbein) viðurkenning vísindanefndar NAFO á að ráðgjöf þeirra hafi verið verið röng frá upphafi veiðanna 1993-4.
Veiðidögum hafði verið fækkað um 15% 2001, en í ljósi "játningarinnar" hefur fjöldinn nú aftur verið aukinn um 15% (febrúar 2002). Ráðherrann okkar og Stóri Grátur spóla hér heima, reyna enn að troða kvótakerfi ( í stað sóknardaga) upp á aðrar þjóðir sem veiða þarna, því allt sé að fara úr böndunum.
=======================
Vorið 2001 fór ég í leiðangur á svæðið og þá leit allt út fyrir að stofninn væri í vexti og ástand hans gott, eða batnandi. Ég skrifaði þrjár skýrslur sem ég sendi til vísindanefndar Nafo. Ein þeirra var um hve vafasamt væri að nota afla á sóknareiningu sem mælikvarða á stofnstærð , önnur var um þróun stofnsins frá 1995 og sú þriðja en hin var um útlitið veiðiárið 2001. Skýrslurnar eru á ensku.
=======================
From: 2001-11-30, http://www.InterSeafood.com
Á fundi vísindanefndar NAFO fyrr í þessum mánuði var lagt til að leyft yrði að veiða 45 þúsund tonn af rækju á Flæmingjagrunni á næsta ári. Ráðgjöf vísindanefndarinnar hefur verið upp á 30 þúsund tonn á ári fyrir sl. þrjú ár. Þegar ráðgjöfin um 30 þús tonna veiði á yfirstandandi ári var birt var tekið fram að trúlega yrði að draga úr aflanum á árinu 2002.
Telja má að ráðgjöf vísindanefndar NAFO fyrir næsta ár marki töluverð tímamót í fiskveiðiráðgjöf á þessu svæði. Ekki þarf að fara nema nokkur ár aftur í tímann til þess að finna tillögu frá vísindanefndinni um algjört veiðibann á rækju á Flæmingjagrunni en tillögur nefndarinnar fyrir árin 1996 og 1997 voru þær að engar veiðar yrðu heimilaðar. Ástæðan var sögð sú að rækjustofninn væri að hruni kominn og að hann þyldi engar veiðar. Fyrir árið 1998 var lögð til ,,lágmarks" veiði og það var ekki fyrr en í veiðiráðgjöf fyrir árið 1999 að lagður var til 30 þúsund tonna kvóti. Sama tillaga var lögð fram fyrir árin 2000 og 2001.
Þegar veiðibann var lagt til fyrir árið 1996 gripu íslensk stjórnvöld til þess ráðs að setja kvóta á veiðar íslensku skipanna og hefur veiðum Íslendinga síðan verið stjórnað með kvóta en aðrar þjóðir hafa stjórnað veiðunum með sóknardögum.
Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur frá árinu 1995 unnið að fiskveiðiráðgjöf á Flæmingjagrunni fyrir Óttar Yngvason útgerðarmann og fleiri og hann hefur lengi gagnrýnt vísindanefnd NAFO fyrir veiðiráðgjöfina á svæðinu. Má í því sambandi minna að í erindi á fundi í Félagi úthafsútgerða í nóvember 1996 gerði Jón grein fyrir rannsóknum sínum og hélt því fram að rækjustofninn væri í góðu standi og búast mætti við aukningu í afla. Hafrannsóknastofnunin hér heima hélt þá fram hinu gagnstæða, stofninn væri í hættu og loka bæri svæðinu fyrir öllum veiðum.
Í samtali við InterSeafood.com segir Jón að tillaga vísindanefndarinnar nú sé viðurkenning á að allt sem nefndin hafi lagt til á undanförnum árum sé hrein og klár vitleysa. Jón segir að rækjuaflinn á Flæmingjagrunni í ár stefni í 50 þúsund tonn og verði því um 20 þúsund tonnum meiri en vísindanefndin taldi óhætt að veiða á árinu. Í ráðgjöf nefndarinnar um 30 þúsund tonna afla á þessu ári hafi komið fram að sá afli myndi leiða til þess að skerða yrði kvótann á árinu 2002.
Þrátt fyrir að farið sé 20 þúsund tonn fram úr ráðgjöfinni og að talið væri að draga þyrfti úr veiðinni á næsta ári miðað við 30 þúsund tonna veiði þá er lögð til 50% kvótaaukning fyrir næsta ár, segir Jón en hann áætlar að veiði umfram veiðiráðgjöf vísindanefndarinnar sl. fimm ár nemi um 130 þúsund tonnum.
Jón vekur athygli á því að ef farið hefði verið að tillögum Íslendinga um að kvótasetja veiðarnar á Flæmingjagrunni og ráðum vísindanefndarinnar hefði verið fylgt þá hefði aldrei komið í ljós hver afrakstursgeta rækjustofnsins var og gríðarleg verðmæti hefðu tapast. Jón segir að í haust hafi hann sent NAFO rannsóknaskýrslu, sem byggð hafi verið á mælingum hans í vor, þar sem hann benti á að ráðgjöf vísindanefndarinnar hefði verið of varfærin. Niðurstöður mælinganna frá í apríl bentu til að stofninn væri enn í vexti og afli myndi aukast miðað við óbreytta sókn.
© Copyright InterSeafood Íslandi hf.
=======================
From: 2001-12-07
Vanmat vísindanefndar NAFO á ástandi rækjustofnsins á Flæmingjagrunni má meta á 15 milljarða íslenskra króna í það minnsta. Fastlega er búist við því að þetta mál verði tekið upp á næsta ársfundi NAFO og sömuleiðis er líklegt að fram komi tillaga um nýja viðmiðun varðandi úthlutun sóknardaga á svæðinu.
Eins og fram kom hér á fréttavef InterSeafood.com fyrir skömmu hefur vísindanefnd NAFO lagt til að heimilað verði að veiða 45 þúsund tonn af rækju á Flæmingjagrunni á næsta ári. Undanfarin ár hefur þessi viðmiðun verið 30 þúsund tonn og ekki eru nema sex ár síðan að vísindanefndin lagði til algjört veiðibann. Var sú tillaga grundvölluð á því að rækjustofninn væri að hruni kominn. Lítið mark hefur verið tekið á tillögum vísindanefndarinnar og hefur veiðunum verið haldið áfram þótt nefndin hafi lagt til veiðibann og sömuleiðis hefur verið veitt vel umfram tillögur nefndarinnar þau ár sem lögð hefur verið til 30 þúsund tonna veiði. Þannig stefnir veiðin í ár að verða um 50 þúsund tonn og undanfarin sex ár hafa verið veidd tæplega 250 þúsund tonn af rækju á Flæmingjagrunni eða um 40 þúsund tonn að jafnaði á ári. Veiðin á árinu 1996 þegar lagt var til algjört veiðibann var 46.400 tonn.
Varlega áætlað er munurinn á tillögum vísindanefndar NAFO og veiðinni á Flæmingjagrunni 100 þúsund tonn á sl. fimm árum. Verðmæti þess afla á núvirði er um 15 milljarðar íslenskra króna.
Viðmælendur InterSeafood.com eru sammála um að hart verði deilt á vísindanefndina á ársfundi NAFO og að þess verði krafist að 15% skerðing sóknardaga á svæðinu frá því í mars sl. verði afturkölluð. Sömuleiðis verði gerð sú krafa að nýtt þriggja ára viðmiðunartímabil verði lagt til grundvallar við úthlutun sóknardaganna. Við núverandi úthlutun er miðað við veiðina frá ársbyrjun 1993 og til ágústloka 1995 og gátu þjóðirnar, sem staðið hafa að veiðunum, valið besta árið á því tímabili og fengið 90% af afla þess árs sem viðmiðun við úthlutun sóknardaganna.
Nokkrar þjóðir hafa lítið sem ekkert nýtt sóknardaga sína á rækjuveiðunum undanfarin ár. Þannig munu Rússar sennilega ekki nýta nema fjórðunginn af um 2000 sóknardögum sínum, nýting Norðmanna nær því e.t.v. að vera þriðjungur að úthlutuðum dögum, Grænlendingar nýta sína daga sama sem ekkert og Kanadamenn eru sömuleiðis með slaka nýtingu. Fulltrúar þeirra þjóða, sem nýta sóknardagana, telja að taka eigi mið af þessu og að eðlilegt sé að síðustu þrjú ár, 1999 til 2001, verði lögð til grundvallar við úthlutun sóknardaganna. Verði það niðurstaðan mun dagafjöldi þeirra þjóða, sem nýtt hafa dagana, aukast en minnka hjá hinum.
Íslendingar eru eina þjóðin sem stýrir rækjuveiðunum á Flæmingjagrunni með aflamarki. Kvótinn á þessu ári er 10.100 tonn en um síðustu mánaðamót var afli íslensku skipanna orðinn tæp 5000 tonn. Aðeins eitt skip er enn að veiðum þannig að ljóst er að um helmingur kvótans næst ekki á árinu. Á sl. þremur árum hafa Íslendingar e.t.v. nýtt um 80% kvótans þannig að ekki er mikil hætta á því að hlutdeild íslenskra skipa minnki þótt tekin verði upp ný viðmiðun.
© Copyright InterSeafood Íslandi hf.