Sóknartakmörkun á Flæmska hattinum

(skrifað í janúar 1997, birtist í Fiskifréttum 10. janúar 1997, bls. 8)

Á fundi sínum í september hafði vísindanefnd NAFO áhyggjur af rækjustofninum á Flæmska hattinum og lagði til að sókn yrði takmörkuð verulega.

Nú hafa fengist nýjar upplýsingar um ástand stofnsins. Kanadamenn fóru í rækjurall á Flæmska hattinum í september sl. og voru niðurstöður þess teknar til umfjöllunar á vinnufundi vísindanefndar NAFO fyrir stuttu.

Teknar voru 68 togstöðvar allt niður á 400 faðma dýpi. Vísitalan mældist 25.000 tonn en það er hlutfallstala sem ávalt er lægri en raunverulegur stofn. Lausleg túlkun Kanadamanna á þessarri tölu var að sóknin 1996 hafi verið lægri en 40% af stofnstærð í ársbyrjum.

Mest fannst af árgangnum frá 1993 en 1994- árgangurinn, sem áður hafði verið talinn lélegur, fannst einnig í miklu magni. Minna fannst af stærri rækju, fjögurra ára og eldri. Sú rækja fannst einkum neðan 200 faðma dýpis. Í stuttu máli: Eyjólfur var miklu hressari en talið hafði verið.

Unnur Skúladóttir fiskifræðingur á Hafró hefur bæði í ræðu og riti látið fara frá sér að þrátt fyrir þennan bata sé ekki ástæða til að endurskoða ráðgjöf um rækjuveiðar á Flæmska hattinum.

Þó nýliðun hafi reynst meiri en haldið var sé enn ekki hægt að meta hana nákvæmlega og nauðsynlegt sé að byggja upp kvendýrastofninn. Þá sé ekki unnt að túlka stofnmælingar af viti fyrr en þær hafi staðið í nokkur ár.

Unnur telur að vísindanefnd NAFO muni ekki breyta sinni ráðgjöf, auk þess sem hún verði ekki endurskoðuð fyrr en á haustfundi 1997. Sjávarútvegsráðherra segist ekki muni breyta ákvörðun sinni um aflakvóta ársins 1997 og nú hefur reglugerð þar að lútandi séð dagsins ljós.

Þetta er einkennileg afstaða en skiljanleg í ljósi þeirrar hræðslu við ofveiði sem flestir fiskveiðistjórnendur virðast vera haldnir. Allar stofnbreytingar niður á við eru skýrðar með ofveiði, stofnbreytingar upp á við eru skýrðar með uppbyggingu (friðun).

Þegar fjallað er um nýtingu rækju verður að hafa í huga að hún er ekki langlíf. Rækjunni á Flæmska er ekki ætlað lengra lífshlaup en 5 ár, sem þýðir að það verður að veiða hana af fullum krafti frá því hennar verður vart í veiðunum 2-3 ára. Stutt æviskeið hefur einnig í för með sér að vonlaust er að ætla sér að byggja upp hrygningarstofn.

Samt vill Unnur láta byggja upp kvendýrastofninn. Ástæðan virðist vera ótti um að hrygningarstofninn geti orðið það lítill vegna veiðanna að hann geti ekki lengur gengt endurnýjunarhlutverki sínu eins og jafnan er sagt þegar þarf að hræða fólk. Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á jákvætt samband hrygningarstofns og nýliðunar hjá rækju, hvað þá að nýliðun í rækjustofni hafi dalað vegna skorts á hrygnum. Þvert á móti sýnist svo sem stór hrygningarstofn hamli nýliðun. Ástæðan er m.a. sú að rækjan étur undan sér. Lirfurnar eru sviflægar fyrsta hálfa árið, fullorðna rækjan er að hluta til svifæta og gerir ekki mun á eigin afkvæmum og öðru svifi. Minna má á að rækjuafli við ísland hefur stöðugt farið vaxandi , bæði innfjarða og í úthafi, samt virðist rækju enn vera að fjölga. Það skyldi þó ekki vera að rækjustofnarnir séu að stækka vegna veiðanna?

Það er því býsna merkilegt að Íslendingar skuli halda fast í þá ákvörðun að handarhöggva sig með því að setja pínukvóta á rækjuna á Flæmska þegar sterk rök hníga að því að nauðsynlegt sé að halda uppi mikilli sókn.

Tillitsemi við Kanadamenn

Högifossur frá Færeyjum var nokkra daga í rannsóknarveiði vestan við Flæmska hattinn. Hann fékk þar um 15 tonn á dag. Í fyrra þegar ég var um borð í Dalborgu vildi ég fara á þetta svæði til að kanna hvort þar væri sami rækjustofn og á Flæmska hattinum. Leyfi var ekki veitt og að því er ég komst næst var ástæðan sú að "menn töldu" að ekki væri teljandi rækja á þessu svæði.

Sannleikurinn er sá að Kanadamenn eiga gríðarleg rækjumið á eigin landgrunni norður með Labrador. Veiðar Kanadamanna eru kvótastýrðar innan landhelginnar og ef þeir fara á Flæmska hattinn, helst er að þeir veiði þar á vorin þegar ís hamlar veiðum við Labrador, dregst sá afli frá kvóta innan landhelginnar. Þar sem kvótinn er miklu fljótteknari innan landhelgi sjá menn ekki ástæðu til þess að leita út.

Við erum því ekki að taka neitt frá Kanadamönnum þegar við erum að sækja rækju vestur á Flæmska hatt.


Aftur á forsíðu