Rækjukvóti á Flæmska hattinum í ljósi nýrra upplýsinga

(Birt í Mogga í jan 1997)

Árið 1996 veiddum við Íslendingar 22.000 tonn af rækju á Flæmska hattinum. Nú hefur sjávarútvegsráðuneytið gefið út reglugerð sem skammtar 6.800 afla með tilheyrandi tekjurýrnun og fækkun atvinnutækifæra til lands og sjávar.

Ástæðan er sögð sú að draga þurfi úr sókn vegna hættu á ofveiði og að við verðum að sýna ábyrgð og ,,nútímaleg vinnubrögð við stjórnun veiða". Samt eru íslensk stjórnvöld ekki nútímanlegri en svo en að þau fyrirskipa allt öðruvísi veiðistýringu en hinar þjóðirnar sem veiða þarna, og í trássi við þær: Framseljanlegan aflakvóta í stað sóknarstýringar.

Dregið hefur verið í efa að sóknarsamdráttur væri nauðsynlegur og bent hefur verið á að afli hafi verið nokkuð stöðugur á svæðinu eftir að hann féll nokkrum mánuðum eftir að veiðar hófust árið 1993, sennilega vegna þess að þá var stóri rækjuárgangurinn frá 1988 að syngja sinn svanasöng, fimm ára gamall.

Í grein eftir þau Unni Skúladóttur og Gunnar Stefánsson sérfræðinga hjá Hafrannsóknastofnun, ,,Varúðar er þörf við veiðar á Flæmingjagrunninu" sem birtist í Verinu þann 30. október sl. eru ástæður þess að vísindanefnd NAFO lagði til að draga þyrfti úr rækjuveiði tíundaðar.

Megin ástæðurnar væru tvær, skortur á ungrækju (nýliðun) og kvenrækju hefði fækkað.

Fiskifæðingar Hafró, ráðgjafar stjórnvalda, voru sammála öðrum kollegum sínum hjá NAFO, enda segir í niðurlagi umræddrar greinar frá 30. október 1996:

,,Þótt ekki sé unnt að merkja vísbendingar um að alfriða þurfi rækjustofninn á Flæmingjagrunni virðist ljóst að varúðar er þörf. Veruleg minnkun sóknar frá árinu 1996 er nauðsynleg til að tryggja að 1993- árgangurinn nái að verða kvendýr í einhverjum mæli. Því sjónarmiði hefur verið haldið fram að þessi niðurstaða sé ekki nægilega studd vísindalegum upplýsingum og að óhætt hljóti að vera að halda uppi sama sóknarþunga og undanfarið. Rétt er að töluvert skortir á að þekkingin sé næg. Hins vegar samræmist þetta sjónarmið ekki nútímalegum vinnubrögðum í ráðgjöf um stjórnun veiða enda dæmin óteljandi í heiminum sem sýna að of þung sókn skaðar fiskstofnana, ekki síst þegar slíkt er gert í ljósi þekkingarskorts." (feitletranir eru mínar, J.Kr.).

Hér má skjóta inn að rækja er ekki fiskur og nýting rækjustofna er ekki alltaf sambærileg við nýtingu fiskstofna, m.a. vegna stutts æviskeiðs og oft mjög hárrar dánartölu.

Megin inntakið í tilvitnuninni er að það þurfi að halda í hendina á 93-árgangnum þangað til að hann hafi náð að hrygna og hafa menn þá væntanlega áhyggjur af því að hrygningarstofninn verði ekki nægilega stór til eðlilegs viðhalds.

Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á jákvætt samband hrygningarstofns og nýliðunar hjá rækju, hvað þá að nýliðun í rækjustofni hafi dalað vegna skorts á hrygnum. Þvert á móti sýnist svo sem stór hrygningarstofn hamli nýliðun. Ástæðan er m.a. sú að rækjan étur undan sér. Lirfurnar eru sviflægar fyrsta hálfa árið, fullorðna rækjan er að hluta til svifæta og gerir ekki mun á eigin afkvæmum og öðru svifi. Minna má á að rækjuafli við ísland hefur stöðugt farið vaxandi , bæði innfjarða og í úthafi, samt virðist rækju enn vera að fjölga.

Nýjar upplýsingar

Til að fá betri upplýsingar um ástand rækjustofnsins á Flæmska hattinum var að hálfu Kanadamanna ráðist í stofnmælingu með þar til gerðum veiðarfærum og aðferðum. Mælingin fór fram um mánaðarmótin september-október. Niðurstöðurnar voru kynntar á vinnufundi NAFO 19-20. nóvember sl.

Í stofnmælingunni kom 1994-árgangurinn (tveggja ára rækja) fram í talsverðu magni og fanns hann aðallega á 110-160 faðma dýpi sem er grynnra en flotinn var að veiðum og skýrir hvers vegna hann kom svo lítið fram í afla 1996. Þá varð einnig vart við 1995 árganginn á um 120 faðma dýpi. Árgangurinn frá 1993 var sá sem mest bar á og mest fannst af rækju á svæðunum sem mest var barið á á sl. sumar. Vísitala alls svæðisins reiknaðist 24.000 tonn en giska má á að til þess að nálgast raunverulega stofnstærð þurfi að margfalda vísitöluna með 3-4. Stærðargráða stofnsins á Flæmska hattinum er því um 100.000 tonn eftir að veidd höfðu verið 40.000 tonn fyrr um sumarið.

Þar sem þetta er fyrsta ,,alvöru" stofnmælingin er ekki til samanburður hvað stofnstærð varðar en þó virðist ástandið betra en menn héldu áður: Nýliðun er í lagi svo langt sem séð verður, 93-árgangurinn er enn stór, stór rækja finnst víðast á 160 -360 faðma dýpi og afli eðlilegur.

Þrátt fyrir þessar nýju jákvæðu upplýsingar sáu fiskifræðingar Hafró ekki ástæðu til að endurskoða afstöðu sína og áætlunin frá í október s.l. um 6.800 tonna kvóta árið 1997 er orðin staðreynd. Sú tala er ekki byggð á öðrum ,,fiskifræðilegum" forsendum en þeim að hún er 90% af afla ársins 1995 (í hitteðfyrra). Aðrar þjóðir ákváðu hins vegar að draga úr sókn og hafa hana 90% af því sem hún var 1996 (í fyrra).


Aftur á forsíðu