Niðurskurður þorskveiðiheimilda

Hinn tröllslegi niðurskurður þorskveiðiheimilda fiskveiðiárið 2008-9 hefur ekki farið fram hjá neinum. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 17. júlí 2007, "Stjórnmálamenn í gíslingu Hafró", þar sem ég bendi á alvarlegar veilur í forsendum Hafró.

Ríkisstjórnin leggur til svokallaðar "mótvægisaðgerðir" sem ætlað var að hjálpa lands (byggða) mönnum yfir þennan tímabundna hjalla sem kallaður var svo. Mikil umræða hefur orðið um aðgerðirnar en ekkert hefur verið fjallað um kjarna málsins: Var faglaga rétt að skera niður þorskveiðar? Er líklegt í ljósi reynslunnar að unnt sé að auka afrakstur þorskstofnsins með friðun? Mun 30% niðurskurður komandi árs skila 75% aukningu næsta ár á eftir, sem er nauðsynlegt ef bæta ætti upp niðurskurðinn miðað við að afli hefði verið óbreyttur?

Engin umræða hefur enn farið fram um réttmæti ráðgjafarinnar. Það er líkt og ekki megi skoða hinar vísindalegu forsendur í gagnrýnu ljósi. - Er ráðgjöfin notuð sem tæki til að setja litlar útgerðir og landsbyggðina á hausinn? Í þágu hvaða hagsmuna?

Fyrir 6 árum gerði Morgunblaðið úttekt á ráðgjöfinni 1991-2001. Hún er afar fróðleg og vekur upp spurninguna: Hafa stjórnmálamenn gleymt öllu sem áður hefur gerst? Er ekki búið að reyna þessa aðferð í þaula? Hvað á þessi vonlausa tilraun að fá að standa lengi?

Til viðbótar Morgunblaðsúttektinni er vert að vekja athygli á úttekt sem ég gerði á ráðgjöf áranna 1978-1985, í aðdranda og upphafi kvótakerfisins.

En hér kemur Moggaúttektin:

Væntingar og vonbrigði

Sunnudaginn 10. júní, 2001 - Sunnudagsblað Morgunblaðsins

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar liggja nú undir harðri gagnrýni vegna nýútkominnar skýrslu þar sem lagt er til að dregið verði verulega saman í þorskaflaheimildum á næsta ári, m.a. vegna ofmats stofnunarinnar á stofnstærð þorsks á síðustu árum. Guðni Einarsson og Jóhanna Ingvarsdóttir litu yfir síðastliðin 10 ár, könnuðu ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og viðbrögð stjórnvalda við ráðgjöf fiskifræðinganna.

Frá því við fengum fullan yfirráðarétt yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu um miðjan áttunda áratuginn, höfum við verið einráð um stjórn okkar á fiskveiðum. Við stöndum hinsvegar enn einu sinni frammi fyrir því að væntingar manna til vaxtar og viðgangs þorskstofnsins hafa ekki gengið eftir þrátt fyrir að hálfur annar áratugur sé nú liðinn frá því að kvótakerfinu var komið á koppinn. Stefnir enn í kvótasamdrátt þar sem fiskifræðingar hafa á undanförnum árum ofmetið stærð þorskstofnsins.

Undir svona kringumstæðum hafa sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar fengið sinn skerf af gagnrýni í gegnum tíðina og hafa ýmsir orðið til þess að gagnrýna þá aðferðafræði, sem viðhöfð er innan stofnunarinnar. Að sama skapi má segja að þjóðarhagur sé í húfi þegar kemur að ráðgjöf fiskifræðinga þó stjórnvöld hverju sinni hafi ekki séð ástæðu til að fara í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar frá því að kvótakerfið var tekið upp árið 1984, nema helst hin síðari ár eftir að aflareglan svokallaða tók gildi. Það hefur leitt til þess að heildaraflinn hefur gjarnan verið umfram leyfilegan hámarksafla.

Eins og gefur að skilja felast miklar hættur í veiðisókn umfram veiðiþol og hefði hrun þorskstofnsins án efa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Íslendinga. Hafrannsóknastofnun er helsti ráðgjafi stjórnvalda í fiskveiðimálum og árlega gefur stofnunin út tölur um æskilegt aflamagn, svo ekki verði gengið "of nærri" stofninum. Sú stefna, sem Hafrannsóknastofnun markaði, var að byggja skyldi upp fiskistofnana svo þeir gæfu af sér meiri afla og öruggari nýliðun. Vernda skyldi hrygningarstöðvar og ungan fisk í uppvexti. Möskvi var stækkaður og skyndilokunum beitt til þess að friða smáfisk svo hann næði að vaxa og stækka stofninn.

1991 : Sígur á ógæfuhliðina

Þorskstofninn á Íslandsmiðum stóð enn veikt árið 1991 þrátt fyrir að Íslendingar hafi haft fulla stjórn á fiskveiðum við landið frá 1. desember 1976. Skýringarnar á því að stöðugt virtist síga á ógæfuhliðina taldi Jakob Jakobsson, þáverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, einkum vera tvær. Annars vegar að ekki hafi verið farið að tillögum fiskifræðinga um sókn í stofninn. Sem dæmi má nefna að árið 1984 lagði Hafrannsóknastofnun til að veidd yrðu 200 þús. tonn af þorski en aflinn nálgaðist 300 þús. tonn það ár. Árið eftir varð munurinn enn meiri því að enn lagði stofnunin til 200 þús. tonna veiði en aflinn fór vel yfir 300 þús. tonn. Árið 1989 var afli umfram tillögur hvað minnstur en þó var veitt rúmlega 50 þús. tonnum meira en stofnunin mæltist til.

Hina ástæðuna fyrir minnkandi þorskstofni sagði Jakob vera að eftir hlýviðrisskeiðið frá 1920 til 1965 hafi árferði á norðanverðu Atlantshafi verið sveiflukennt undanfarin 25 ár. Á þessu tímabili hafi oft verið mikið um pólsjó á Íslandsmiðum. Afleiðingar lélegs árferðis á þorskstofninn kæmi m.a. fram í því að árgangarnir alveg frá árinu 1986 væru lélegir auk þess sem ástandið við Grænland hefði einnig versnað.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar lögðu til að þorskafli á fiskveiðiárinu 1991/1992 færi ekki umfram 250 þús. tonn þar sem horfurnar væru slæmar vegna lélegrar nýliðunar og líklegt væri að afli næstu þrjú árin mætti ekki fara yfir 250 þús. tonna markið. Þeir töldu þá að ef veidd yrðu 300 þús. tonn árin 1992 og 1993 myndi veiðistofn fara verulega minnkandi, úr 850 þús. tonnum í ársbyrjun 1992 í um 730 þús. tonn í ársbyrjun 1994 og hrygningarstofn minnka sömuleiðis.

Í tillögum Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 1991/1992 segir m.a. svo: "Á undanförnum árum hefur sókn í þorskstofninn verið alltof hörð. Þrátt fyrir ítrekaðar ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar um að dregið verði úr sókn hefur ekki tekist að byggja upp þorskstofninn þannig að fleiri árgangar verði í veiðistofni og hrygningarstofn vaxi. Um 35-40% af veiðistofni hafa verið veidd árlega. Þetta hefur leitt til þess að veiðar hafa byggst að verulegu leyti á nýliðun og hrygningarstofn hefur verið í lágmarki undanfarinn áratug. Nú eru fimm lélegir árgangar að koma eða komnir inn í veiðistofninn. Hver nýliði gefur af sér um 1,7 kíló miðað við núverandi sóknarmynstur og er sýnilegt að afli næstu árin getur vart orðið meiri en 200 til 250 þús. tonn eigi ekki að ganga verulega á stofninn." Samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðherra mátti á fiskveiðiárinu 1991/1992 veiða 265 þúsund tonn eða 15 þúsund tonn umfram ráðgjöf fiskifræðinga. "Með þessari ákvörðun er lítillega vikið frá tillögum Hafrannsóknastofnunar vegna þeirrar þröngu efnahagslegu stöðu, sem við erum í. Þetta hefur mikil áhrif á þjóðarbúskapinn í heild og við teljum að við þessar aðstæður sé óhjákvæmilegt að huga að mótun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu," sagði Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, á blaðamannafundi þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

1992 : Málamiðlun í ríkisstjórn

Enn seig á ógæfuhliðina þegar komið var fram á fiskveiðiárið 1992/1993. Ríkisstjórnin komst að þeirri niðurstöðu á löngum fundi að leyfa veiðar á 205 þúsund tonnum af þorski þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafði gert tillögu um 190 þúsund tonna hámarksþorskafla það ár. Það var um 60 þús. tonnum minna en stofnunin lagði til fyrir árið á undan og 75 þús. tonna minni kvóti.

Sjávarútvegsráðherra nefndi þessa niðurstöðu málamiðlun, í viðtali við Morgunblaðið á sínum tíma, en þegar ráðherra var spurður hvort það hefði aldrei komið til greina í hans huga að standa og falla með eigin sannfæringu og leggja til á ríkisstjórnarfundinum að hámarksafli þorsks yrði takmarkaður við 190 þús. tonn, svaraði hann því til að hann hefði lagt aðaláherslu á að finna lausn og ná samstöðu um málið. "Ég neita því ekkert að ég hefði viljað fá meiri árangur í friðun, en ég tel þó að við höfum náð hér mjög umtalsverðum árangri og stigið skref fram á við. Mín ósk hefði auðvitað verið sú að ná fram meiri árangri, en þegar menn þurfa að miðla málum, þá verða allir að fá eitthvað af sínum sjónarmiðum viðurkennd. Ég óttast það, og er reyndar alveg sannfærður um það, að ef ég hefði látið reyna á ýtrustu kröfur af minni hálfu og yfirgefið ríkisstjórnina vegna þess að þær hefðu ekki náðst fram, þá hefði niðurstaðan að öllum líkindum orðið miklum mun meiri veiði og minni verndun þorskstofnsins," sagði Þorsteinn og bætti við: "Hér er vissulega um málamiðlun að ræða sem hefur líka í för með sér að það er tekin nokkur áhætta með þorskstofninn, miðað við þær vísindalegu niðurstöður sem við höfum í höndum. Að mínu mati er hér um að ræða ásættanlega niðurstöðu miðað við allar aðstæður."

Jakob Magnússon, þáverandi aðstoðarforstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði niðurstöðuna hafa verið ofurlítið skref til uppbyggingar á þorskstofninum, en hann hefði gjarnan viljað sjá það skref stærra. Fiskifræðingar töldu sumarið 1992 nauðsynlegt að takmarka aflann við 175 þús. tonn næstu tvö ár á eftir með það markmið í huga að byggja hrygningarstofninn upp enda væri styrkur hans forsenda góðrar nýliðunar.

Eftir að tillögur Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 1992/1993 voru kynntar og nokkru áður en ríkisstjórnin tilkynnti ákvörðun sína um leyfilegan heildarafla, sagðist sjávarútvegsráðherra í samtali við Morgunblaðið, m.a. telja að við stæðum frammi fyrir því að gera það upp við okkur hvort við ættum að setja okkur ný markmið varðandi nýtingu stofnsins.

"Fram til þessa hefur ráðgjöfin miðað að því að halda stofninum í jafnvægi. Síðan höfum við farið verulega fram úr þessari ráðgjöf, bæði í ákvörðunum um heildarafla og í veiðireynslu. Nú er stofninn kominn í lágmark, og þá sýnist mér að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort ekki sé nauðsynlegt að setja ný markmið, sem miða að því að byggja stofninn upp.

Frá mínum bæjardyrum séð eru fyrir því mjög gild rök og við munum við undirbúning endanlegrar ákvörðunar hafa þetta í huga."

1993 : Uppbygging stofnsins

Tillögur Hafrannsóknastofnunar miðuðu við 150 þúsund tonna þorskafla á fiskveiðiárinu 1993/1994 og taldi stofnunin að veiðar umfram 175 þús. tonn stefndu þorskstofninum í hættu. Stefnt skyldi að uppbyggingu stofnsins með því að takmarka aflann enn frekar og sagði Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, niðurstöðuna ekki þurfa að koma mönnum á óvart. Nýútkomin skýrsla væri aðeins staðfesting á síðustu skýrslu, sem út hafi komið ári áður.

"Mér sýnist að við getum dregið þá ályktun af þessari skýrslu að hagkvæmar veiðar úr þorskstofninum liggi á bilinu frá 125 þús. lestum upp í 175 þús. lestir. Áhættuþættirnir eru mismunandi eftir því hvar menn ber niður á þessu svigrúmi, en utan við þennan ramma sýnist manni að ekki geti verið um skynsama eða hagkvæma nýtingu að ræða," sagði sjávarútvegsráðherra.

Stjórnvöld ákváðu að heildaraflamark þorsks fiskveiðiárið 1993/1994 yrði 165 þús. lestir eða 15 þúsund tonnum umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem var í fullu samræmi við þá tillögu, sem Þorsteinn Pálsson lagði fyrir ríkisstjórn. "Ég tel að þetta sé mjög veigamikið skref til þess að mæta erfiðum aðstæðum sem þjóni þeim tilgangi að byggja þorskstofninn upp á ný, sem hlýtur að vera meginmarkmið okkar," sagði ráðherra í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma.

1994 : Sögulegt lágmark

Að mati Hafrannsóknastofnunar var þorskur á Íslandsmiðum í sögulegu lágmarki vorið 1994 og gerðu fiskifræðingar þá tillögu um að aðeins yrði leyft að veiða 130 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 1994/1995. Með því stæðu líkur til að bæði hrygningar- og veiðistofn stækkuðu, miðað við eðlilegar aðstæður í lífríki sjávar. Líkur væru á að við 130 þús. tonna afla yrði veiðistofninn kominn í 770 þús. tonn árið 1997 og hrygningarstofn í tæp 300 þús. tonn. Jakob Jakobsson benti á að allt frá 1985 eða samfellt í níu ár hefðu þorskárgangar verið lélegir og allir undir meðallagi. Af því hlyti þróun þorskstofnsins að mótast næstu árin, en reynslan sýndi að sjaldan væri farið að tillögum stofnunarinnar.

Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, ákvað í kjölfar ráðgjafarinnar að heimila veiði á 155 þúsund tonnum eða 25 þúsund tonnum umfram ráðgjöf fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að erfitt væri að skera þorskafla frekar niður en þegar hafi verið gert. "Að hinu leytinu vitum við að við stöndum frammi fyrir mikilli hættu og að við verðum að ná því marki að geta stækkað veiðistofninn. Það er jafnframt ljóst að hrygningarstofninn má ekki minnka."

1995 : Enginn niðurskurður

Ífyrsta sinn um langt skeið lagði Hafrannsóknastofnunin til á vormánuðum 1995 að veitt yrði jafnmikið af þorski á fiskveiðiárinu 1995/1996 og á árinu á undan eða 155 þús. tonn og fór sjávarútvegsráðherra í einu og öllu eftir þeirri ráðgjöf. Jók það nokkuð á bjartsýni manna hvað varðaði vöxt og viðgang þorskstofnsins. Þá var einnig í fyrsta sinn stuðst við svokallaða aflareglu stjórnvalda sem kvað á um að aldrei skyldi veitt meira en fjórðungur úr veiðistofninum ár hvert, en þó ekki minna en 155 þúsund tonn.

Með slíkri nýtingarstefnu töldu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar að innan við 1% líkur væru á hruni stofnsins og ef aflareglunni yrði fylgt myndi hrygningarstofn stækka nokkuð og fiskveiðidánarstuðlar lækka verulega á næstu tveimur árum. Stofnunin taldi að aflareglan myndi gefa góða raun til lengri tíma litið og lagði til að þeirri stefnu yrði fylgt enda miðaðist úthlutað aflamark hvers árs við að afli á Íslandsmiðum héldist innan þeirra marka sem aflareglan kvæði á um hverju sinni.

Fjórðungur veiðistofnsins árið 1995 var talinn samsvara um 140 þúsund tonnum, en Hafrannsóknastofnun taldi engu að síður að með 155 þúsund tonna nýtingu gæti veiðistofninn vaxið þannig að óhætt yrði að veiða úr honum 168 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 1996/1997 og um 200 þúsund tonn 1997/1998. Stofnunin taldi að hrygningarstofninn myndi vaxa hægt á næstu árum. Erfitt yrði að byggja hann hraðar upp þótt veiðar yrðu skertar meira.

"Þessi ákvörðun um heildarafla nú markar nokkur tímamót," sagði Þorsteinn Pálsson í samtali við Morgunblaðið í júlí 1995. "Þetta er í fyrsta skipti síðan 1988 að ákvörðun um heildarafla felur ekki í sér niðurskurð á þorskveiðiheimildum milli ára. Þær verða nú óbreyttar milli fiskveiðiára. Það eru vissulega kaflaskipti og við bindum vonir við að framhaldið verði á þann veg, að við getum hægt og bítandi aukið þorskveiðiheimildir á næstu árum. Þetta sýnir að sú stranga uppbyggingarstefna, sem við höfum fylgt, er að byrja að skila árangri."

1996 : Merkileg tímamót

Það þótti tíðindum sæta að Hafrannsóknastofnun lagði til 20% aukningu þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997. Þorskkvótinn skyldi aukinn úr 155 þúsund tonnum í 186 þúsund tonn. Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði m.a. af þessu tilefni: "Þetta eru merkileg tímamót sem verða með framlagningu þessarar skýrslu. Í fyrsta skipti síðan ég tók við stöðu forstöðumanns þessarar stofnunar fyrir 12 árum erum við ekki að leggja til samdrátt í þorskveiðum."

Ískýrslunni kom greinilega fram það mat Hafrannsóknastofnunar að botninum í þorskveiðum hafi verið náð á þessu ári og að leiðin lægi upp á við. Veiðistofn þorsks hafði samkvæmt mælingum verið 550-670 þúsund tonn undanfarin fimm ár. Taldi stofnunin að veiðistofninn mundi verða 814 þúsund tonn 1997 og 850 þúsund tonn í árslok 1998.

Þessum tíðindum var tekið fagnandi af stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, sagði það vera mikil tímamót þegar kæmi ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun um aukna þorskveiði í fyrsta skipti í mörg ár. Nú sæist árangur mikilla erfiðleika og margra niðurskurðarára. "Sjálfur er ég mjög ánægður með að sú stefna sem mörkuð var í þeim efnum er nú byrjuð að skila árangri," sagði Þorsteinn.

Ákynningarfundi Hafrannsóknastofnunar í maí 1996 sagði Gunnar Stefánsson, tölfræðingur og formaður fiskveiðiráðgjararnefndar Hafrannsóknastofnunar, að erfitt yrði að spá fyrir um hver þróunin yrði eftir 1998. Nýir þorskárgangar síðustu ára væru flestir lélegir og ólíklegt að vöxtur í veiðinni yrði mjög hraður meðan svo væri.

Það olli og fiskifræðingum áhyggjum að nýliðun í þorski var áfram léleg. Árgangar frá 1991 og 1992 voru mjög lélegir, 1993 árgangurinn í tæpu meðallagi, 1994 árgangurinn mjög lélegur og 1995 árgangurinn talsvert undir meðallagi.

1997 : Stofninn styrkist

Samkvæmt úttekt Hafrannsóknastofnunar vorið 1997 var stærð veiðistofns þorsks 1997 áætluð 889 þús. tonn, þar af var hrygningarstofninn talinn um 406 þús. tonn. Þetta var nokkuð umfram fyrri væntingar og var það að mestu leyti rakið til þess að meira dró úr sókn í yngri fisk en áætlað hafði verið. Skýringar á stærri hrygningarstofni voru m.a. að veiðistofn var nú metinn stærri, auk þess væru hlutfallslega fleiri fiskar í stofninum kynþroska, en áður var talið. Hafrannsóknastofnun lagði til að þorskkvóti fyrir fiskveiðiárið 1997/1998 yrði aukinn um 32 þús. tonn og yrði alls 218 þús. tonn. Var það gert í samræmi við veiðiregluna frá 1995.

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra fór í meginatriðum að tillögum Hafrannsóknastofnunar og sagði m.a.: "Þorskstofninn heldur áfram að styrkjast og það er árangur þeirra hörðu stjórnunaraðgerða, sem við höfðum gripið til. Það er verulegur áfangi að koma veiðiheimildunum vel yfir 200 þúsund lestir á nýjan leik. Það sem veldur þó enn áhyggjum varðandi þorskstofninn er að yngstu árgangarnir, sem eiga að koma inn í veiðina á næstu árum, eru enn mjög veikir. Við getum því ekki vænst þess að það verði jafnhraður vöxtur á næstu árum nema við fáum nýja og sterka árganga. Þess vegna skiptir núna miklu máli að fylgja fast fram þeirri veiðireglu, sem hefur leitt til þess árangurs, sem nú þegar hefur náðst, því við þurfum að styrkja stofninn enn frekar."

1998 : Ávöxtur aflareglunnar

Hafrannsóknastofnun lagði til að aflahámark í þorski yrði 250 þús. tonn fiskveiðiárið 1998/1999. Var það aukning um 32 þúsund tonn frá fyrra ári. Stærð veiðistofns þorsks var áætluð 975 þús. tonn og þar af var hrygningarstofninn talinn um 528 þús. tonn. Þetta var töluvert meira en úttekt ársins 1997 gaf til kynna. Breytingin var m.a. skýrð með því að árgangarnir frá 1992 og 1993 væru nú taldir stærri en áður. Þetta átti alveg sérstaklega við um árgang 1992, sem hafði gætt meir í veiðunum en búist hafði verið við.

Samkvæmt aflareglunni ráðgerði Hafrannsóknastofnun að veiðast myndu 250 þús. tonn fiskveiðiárið 1998/1999 og fiskveiðiárið 1999/2000 248 þús. tonn. Veiðistofninn myndi vaxa úr 975 þús. tonnum í ársbyrjun 1998 í 999 þús. tonn í ársbyrjun 2001 en hrygningarstofn úr 528 þús. tonnum 1998 í 565 þús. tonn 2001.

Hafrannsóknastofnun reiknaði árið 1998 áhrif mismunandi afla á þorskstofninn. Samkvæmt þeim útreikningum var talið að ef veidd yrðu 155 þús. tonn árin 1999 og 2000, mundi veiðistofn vaxa í rúm 1.200 þús. tonn árið 2001 og hrygningarstofn stækka úr rúmum 500 þús. tonnum 1998 í rúm 770 þús. tonn árið 2001. Við 250 þús. tonna afla næstu ár myndi veiðistofninn vaxa í milljón tonn og hrygningarstofn í 560 þús. tonn árið 2001. Við 300 þús. tonna afla næstu ár mundi veiðistofn minnka um tæp 10% og hrygningarstofn um rúm 14% fram til ársins 2001. Samkvæmt aflareglunni frá 1995 átti veiðistofninn að vaxa í milljón tonn og hrygningarstofn í 565 þús. tonn árið 2001.

Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, benti á að þetta væri þriðja árið í röð sem Hafrannsóknastofnun legði fram tillögur um aukinn þorskafla eftir að aflareglan var tekin upp. "Við teljum að það hafi tekist að snúa við þeirri alvarlegu þróun sem var í þorskstofninum með aflareglunni og með þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið. Við megum heldur ekki gleyma því að einmitt á þessum tíma hefur náttúran verið okkur býsna hliðholl, sérstaklega að því er varðar vöxt og viðgang loðnustofnsins. Þetta eru tveir mikilvægustu og fyrirferðarmestu fiskstofnarnir í íslenska vistkerfinu og þeir virðast báðir vera í góðu standi; þorskstofninn á uppleið og loðnan sjaldan ef nokkurn tímann verið í betra ástandi. Það er því bjart yfir að þessu leyti því þorskurinn dafnar vel þegar nóg er af loðnunni." Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra sagði að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar væri um margt ánægjuleg. "Hún staðfestir viðreisn þorskstofnsins og að þær erfiðu aðgerðir sem við gripum til á sínum tíma eru að skila árangri." Studdist ráðherrann í einu og öllu við tillögur Hafrannsóknastofnunar við ákvörðun leyfilegs hámarksafla á fiskveiðiárinu 1998/1999.

1999 : Jafnstaða í þorski

Hafrannsóknastofnun taldi veiðistofn þorsks nánast jafnstóran og árið áður. Samkvæmt aflareglunni mætti veiða 247 þús. tonn fiskveiðiárið 1999/2000 og 2000/2001 yrði þorskaflinn 249 þús. tonn. Talið var að veiðistofn þorsks myndi vaxa og verða 1.150 þús. tonn í byrjun ársins 2002 og hrygningarstofninn 575 þús. tonn.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði m.a.: "Spár okkar frá fyrra ári um þorskstofninn standast vel. Það má gera ráð fyrir að þorskaflamark á næsta fiskveiðiári verði nánast það sama og á þessu ári. Mat okkar á ástandinu nú er svipað og það var í fyrra, eins og við spáðum þá. Varðandi þorskinn eru það góðar fréttir að minnsta kosti tveir meðalstórir árgangar séu að komast á legg, árgangarnir frá 1997 og 1998, þótt það sé kannski heldur snemmt að segja til um framvinduna.

Reyndar er komin svolítil reynsla á 1997 áranginn og hann virðist að minnsta kosti vera meðalárgangur, sem er mjög mikilvægt. 1998 árgangurinn sem samkvæmt seiðatalningu átti að vera mjög sterkur, virðist ætla að verða að minnsta kosti í meðallagi... Þetta eru auðvitað jákvæðar fréttir og jákvætt að þorskstofninn er á uppleið og við höfum náð stýringu á nýtingu hans."

Ríkisstjórnin ákvað að fara í megindráttum að tillögum stofnunarinnar. Þó var þorskafli aukinn um 3.000 tonn frá því sem tillögurnar kváðu um eða í 250 þúsund tonn.

Morgunblaðið leitaði álits ýmissa aðila á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, m.a. þeirra Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar framkvæmdastjóra á Bakkafirði, sem gagnrýndu aðferðir stofnunarinnar. Jóhann Sigurjónsson, forstóri Hafrannsóknastofnunar, vísaði því á bug að ekki væri sjáanlegur árangur af uppbyggingu þorskstofnsins hér við land og benti á að frá fiskveiðiárinu 1995/1996 hafi heildaraflamark verið aukið úr 155 þúsund tonnum í 250 þúsund tonn. Tillaga stofnunarinnar um þorskafla á fiskveiðiárinu 1999-2000 væri ennfremur í fullu samræmi við fyrri áætlanir, enda hafi ekki verið gert ráð fyrir aukningu á næsta fiskveiðiári. "Við fiskverndunina hafa einstaklingar í þorskstofninum náð að vaxa og bæta við sig þyngd. Aukningin á undanförnum árum felst í þessu en ekki vegna fleiri einstaklinga í stofninum. Vissulega sjáum við merki þess að þorskurinn sé rýrari en á undanförnum árum en það er ekkert sem við þurfum að hafa verulegar áhyggjur af á þessum tímapunkti en engu að síður full ástæða til að fylgjast vel með þessu og það höfum við gert mjög nákvæmlega. Það er hinsvegar ekki ástæða til að ætla að þorskurinn sé að éta sig út á gaddinn," sagði Jóhann.

2000 : Niðurskurður

Tillögur Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 2000/2001 fólu í sér verulegan niðurskurð á leyfilegum hámarksafla af þorski. Lagt var til að þorskaflahámarkið yrði 203 þús. tonn eða 47 þús. tonnum minna en árinu áður. Áætlað var að í ársbyrjun 2000 hafi veiðistofn þorsks verið 756 þús. tonn en árinu áður var hann talinn vera 1.031 þús. tonn. Samkvæmt aflareglunni, sem heimilaði veiði á 25% af veiðistofni, var reiknað aflahámark því 203 þús. tonn. Á sama tíma taldi Hafrannsóknastofnun að fiskveiðiárið 2001/2002 yrði þorskaflahámarkið 234 þús. tonn. Stofnunin áætlaði og að veiðistofninn færi úr 756 þús. tonnum í ársbyrjun 2000 í 1.140 þús. tonn í ársbyrjun 2003 og að hrygningarstofninn yxi úr 406 þús. tonnum í 586 þús. tonn.

Að mati Hafrannsóknastofnunar var breytilegur veiðanleiki þorsks frá ári til árs líklegasta skýringin á muninum á stofnmatinu vorið 2000 og árinu áður, auk aukinnar sóknar í elsta fiskinn.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði m.a. um 20% minna stofnmats þorsksins: "Eflaust veldur þetta vonbrigðum í greininni því menn hafa lagt mikið á sig við uppbyggingu stofnsins á undanförnum árum. Aflareglunni hefur verið fylgt og teljum við það hafa verið mjög farsælt skref en einmitt vegna þess er svo komið að hrygningastofn og veiðistofn þorsks er ekki í bráðri hættu eins og horfur voru á fyrir fimm til sjö árum. Þó einhverjir hafi túlkað þetta sem bakslag í fiskveiðiráðgjöf okkar eða fiskveiðistefnu er mikilvægt að átta sig á langtímahugsuninni í þessari nýtingarstefnu og séu þess meðvitaðir að meðal annars vegna þessarar veiðistefnu séu þrír meðalstórir og jafnvel sterkari árgangar í farvatninu, sem koma strax inn í veiðarnar á næsta ári og sérstaklega árin þar á eftir."

Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra sagði að slæmt ástand þorskstofnsins kæmi sérstaklega á óvart. "Þetta er ekki sú niðurstaða sem við bjuggumst við og þar af leiðandi eru þetta vonbrigði. Sú niðurstaða sem kemur mest á óvart er matið á þorskstofninum og við þurfum að skoða hvaða ástæður liggja þar að baki. Við munum fara gaumgæfilega ofan í þetta á næstu vikum." Ríkisstjórnin ákvað síðan að leyfilegur heildarafli í þorski á fiskveiðiárinu 2000/2001 yrði 220 þús. tonn, sem var 30 þús. tonnum minni afli en árinu áður. Þetta var 17 þúsund tonn umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar. Ákvörðun þorskaflamarksins tók nú mið af breyttri aflareglu. Í breytingunni fólst að þorskafli breytist aldrei meira en 30 þúsund tonn milli ára og sagði Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra að þannig mætti vega upp á móti óvissu í stofnstærðarmati og draga úr óhagkvæmum sveiflum á hámarksafla. Árni sagði þessa nýju reglu ekki síður hafa jákvæð áhrif á viðgang þorskstofnsins en eldri reglan þegar litið væri til næstu framtíðar, auk þess sem hún mundi draga úr sveiflum í ákvörðunum um hámarksafla milli ára. Hann lagði áherslu á aflareglunni yrði ekki breytt á næsta ári, heldur verði hún endurskoðuð eftir nokkur ár.

Sjávarútvegsráðherra sagði niðurstöður Hafrannsóknastofnunar, fyrr um vorið varðandi þorskstofninn, hafa komið á óvart enda fáir búist við 300 þús. tonna minnkun veiðistofns á milli ára. Væru tölur hins vegar skoðaðar væri augljós breytileiki og óvissa í stofnstærðarmati, að minnsta kosti 20% og jafnvel meiri. Árni sagði að þrátt fyrir það bæri ætíð að byggja á bestu vísindalegri þekkingu. "Við verðum að læra að gera okkur grein fyrir þeirri óvissu sem þessu fylgir og taka hana með í reikninginn þegar aflinn er ákveðinn."

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, taldi það jákvætt að endurskoða aflaregluna með reglubundnu millibili. "Nú, þegar það hefur verið gert, er nauðsynlegt að hún verði látin gilda um skeið nema forsendur gjörbreytist," sagði Jóhann. Hann benti og á að gamla reglan hefði gilt í fimm ár og með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri litið svo á að búið væri að festa þessa breytingu á aflareglunni í sessi næstu fimm árin, nema forsendur breytist eitthvað verulega á þessum tíma.

2001 : Meiri samdráttur

Nýjasta ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir að enn verði þorskafli skorinn niður. Það fer ekki á milli mála að sú niðurstaða hefur valdið vonbrigðum enda mikið í húfi. Því þrátt fyrir aukna fjölbreytni í atvinnulífi er þorskurinn enn mikilvægur fyrir þjóðarbúið.

Til baka