- Gluggað í gamlar skýrslur -

Jón Kristjánsson (skrifað 1996)

Hafrannsóknastofnunin hefur í mörg ár gefið út skýrslur um ástand fiskstofna á hverjum tíma og útlit um veiði næsta árs og ára. Jafnframt hafa verið í þessum skýrslum leiðbeiningar til stjórnvalda um hve mikið skyldi veiða á komandi ári. Á hverjum tíma hafa þessar skýrslur verið samkvæmt því sem best var vitað þegar þær voru skrifaðar. Því er fróðlegt að skoða þessar skýrslur aftur í tímann og sjá hvað gerðist miðað við það sem spáð var í skýrslunum. Ýmsir hafa gert þetta áður og þá borið saman aflaspár eða aflatillögur og fengið fróðlegar niðurstöður. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að textinn hafi verið skoðaður í þeim tilgangi að finna út markmið og forsendur fyrir þeim, túlkun gagna, og þá fiskifræði sem lögð er til grundvallar fiskveiðistjórnunni.

Ég hef tekið eftir því í samræðum við fólk að afar fáir eiga allar þessar skýrslur, fáir hafa lesið þær eða eru búnir að gleyma hvað í þeim stóð og líklega hefur ekki nokkur maður skoðað þær í faglegu samhengi.

Ég vil bæta úr þessu vegna þess að þörf er á slíku í ljósi þess hvernig Hafró bregst við þeirri gagnrýni að eitthvað geti verið bogið við fiskveiðistjórnun stofnunarinnar og slengir stöðugt út staðhæfingum sem enginn hefur tök á kynna sér af eigin raun. Dæmi: Veiðin í stríðinu.

Því er stöðugt haldið að fólki að þorskstofninn hafi verið að ganga til þurrðar fyrir seinna stríð, en stríðið hafi valdið því að hann náði sér svo vel á strik aftur. Lítið hafi þá verið þá veitt af smáfiski, auðvelt hafi verið að ná í aflann af því að stofninn hafi verið svo stór. Þetta er sagt en ekki rökstutt með gögnum nema línuriti yfir stærð stofnsins. Ekkert sagt hvers vegna dró úr afla Íslendinga fyrir stríð, ekkert um eftir hvaða forsendum stofninn var reiknaður, ekkert um vöxt, nýliðun, dánartölu, sóknarþunga, ekkert um Grænlandsgöngur, hve flotinn var stór, hvernig hann byggðist upp o.s.frv. Það er bara sagt: Þetta var svona.

Aflinn frá 1920

Þessi mynd sýnir þorskafla á Íslandsmiðum frá 1918-1998. Það tekur aflann tíu ár frá lokum stríðsins að fara fram úr því sem hann var um 1930. Skýringu á aflaminnkun upp úr 1933 má m.a. rekja til heimskreppunnar, en þá var illmögulegt að selja fisk. Það er erfitt að sjá hvermig unnt er að halda því fram að aflinn hafi aukist eftir stríðið vegna friðunnarinnar þá. Hafa ber í huga að 10 ár eru tvö æfiskeið þorsks.

Friðunarstefnan

Sú stefna var tekin eftir útfærslu Landhelginnar í 200 mílur árið 1975 að minnka sókn í smáfisk í þeirri von að hann "entist" betur og myndi veiðast síðar, stærri. Þetta var gert með stækkun möskva og lokun svæða þar sem smáfiskur fékkst. Ég hef áður bent á að þetta hafi mistekist vegna þess að á meðan tilraunin stóð yfir hafi það sýnt sig að fæðuframboðið leyfði ekki þessa stækkun stofnsins.

Löngu síðar, eftir 1990, var farið að nota afleiðingar rangrar fiskveiðistjónunar, minnkandi fiskstofna, til þess að rökstyðja nauðsyn framhalds hennar!

Þess vegna er fróðlegt að skoða skýrslur Hafró frá þessum tíma og skoða þær viðvaranir sem þorskstofninnn var að gefa vísindamönnunum á árunum 1978-1985.

Sá háttur verður hafður á að tekið er fyrir eitt ár í einu og jafnharðan rætt um þau atriði sem þurfa þykir. Hefjum nú lesturinn.

Horfur 1978.

"Árabilið 1955-1974 var meðalársafli þorsks um 400 þús. tonn. Mestur varð aflinn árið 1954 tæplega 550 þús. tonn, en minnstur árið 1987, eða 345 þús. tonn.Árin 1968-1970 óx aflinn á ný og náði árið 1970 hámarki, 471 þús tonnum. Þessi aukning stafaði að miklu leyti af sterkum þorskggöngum frá Grænlandsmiðum. Síðan 1970 hefur afli farið minnkandi þrátt fyrir að góðir árgangar bættust í veiðanlega stofninn, t.d. árgangarnir frá 1964 og 1970. Árið 1977 er heildaraflinn áætlður um 340 þús. tonn. Á umræddu tímabili hefur sókn aftur á móti farið sívaxandi og náði hún hámarki árið 1975. Við brotthvarf útlendinga af miðunum hefur sóknin aftur minnkað. Ástæðan fyrir því að aukin sókn skilaði ekki auknum afla, var minnkun þorskstofnsins. Þannig hefur heildarstofninn minnkað úr 2.6 millj. tonnum árið 1955 í 1.2 millj. tonna árið 1978. Hrygningarstofni þorsksins hefur hrakað enn meira, úr 1 millj. tonna árið 1957-1959 í 180 þús. tonn árið 1978. Það er einkum tvennt sem hefur valdið minnkandi stofnstærð: 1. Ástand þorskstofnsins við Grænland hefur verið lélegt undanfarin ár og fiskur því ekki gengið þaðan til hrygningar hér við land. 2. Með vaxandi sókn jókst óhjákvæmilega sókn í smáfisk, svo af þeim sökum hefur kynþroska þorski farið fækkandi. Með útfærslu fiskveiðilögsögunnar, brotthvarfi útlendinga af miðunum, stækkun möskva og lokun ýmissa uppeldissvæða tímabundið eða til langframa, hefur dregið talsvert úr sókninni í smáþorskinn eins og vikið verður að síðar."

"Ört minnkandi hrygningarstofn hefur leitt til vaxandi líkinda á því, að klak þorsksins misfarist. Enda þótt ekki hafi verið sýnt fram á samhengi milli stærðar hrygningarstofns og niðjafjölda, er þó augljóst, að einhver eru þau stærðarmörk hrygningarstofnsins, þar sem hann verður ófær um að gegna líffræðilegu endurnýjunarhlutverki sínu. Hér að lútandi er athyglisvert að viðkoma þorskstofnsins hefur verið mjög sveiflukennd síðustu 4 ár, þ.e. eftir að stofninn fór niður undir og niður fyrir 200 þús. tonn."

"Lítill hrygningarstofn samsettur af tiltölulega fáum aldursflokkum, kemur til hrygningar á takmörkuðu tímabili og veltur því á miklu, að umhverfisaðstæður séu hagstæðar einmitt þá. Þegar hrygningarstofn er stór og í honum margir aldursflokkar, dreifist hrygning yfir lengri tíma, sem stuðlar að því að einhver hluti stofnsins hrygni við hagstæðar aðstæður. Líta má á stóran hrygningarstofn sem aðlögun tegundarinnar að breytilegum umhverfisaðstæðum og tryggingu fyrir viðhaldi hennar".

"Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að byggja upp hrygningarstofninn og þorskstofninn í heild og tryggja þannig viðkomu stofnsins og hámarksafrakstur hans. Telja má eðlilegt að haga nýtingu þorskstofnsins á þann veg að, að nota stóru árgangana frá 1973 og 1976 sérstaklega í þessu skyni."

"Auk þeirra friðunaraðgerða, sem þegar eru í gangi, leggur Hafrannsóknastofnunin því til, að þorskafli 1978 og 1979 fari ekki yfir 270 þús. tonn hvort ár".

Aflinn 1978 varð 328 þúsund tonn, 58 þúsund tonn fram úr ráðgjöf.

Allt sem stendur í klausunni hér að ofan er annaðhvort rangt eða hreinar getgátur. Tímasetning hrygningar fiskstofna fer ekki eftir stærð þeirra a.m.k. hef ég ekki séð nein gögn um slíkt. Einstakir fiskar vita ekki hve margir aðrir fiskar ætli að hrygna og tímasetja því hrygningu sína hver um sig í takt við þær umhverfisaðstæður sem ríkja þar sem þeir ætla sér að hrygna. Aðstæður eru mismunandi eftir stöðum eða svæðum og því eru fiskar sömu tegundar að hrygna á mismunandi tíma á mismunandi stöðum og skal ekki fjölyrt meira um jafn sjálfssagðan hlut.

Rangt er að halda fram að stór hrygningarstofn sé aðlögun tegundarinnar að breytilegum aðstæðum enda ekki verið sýnt fram á að hrygningarstofnar fiska sem lifa við breytilegar aðstæður séu stærri en hinna sem lifa við stöðugleika. Hins vegar er stærð hrogna og þar með fjöldi þeirra í hverri hrygnu breytileg. Þar sem afkoma eggjanna er ótrygg og duttlungum háð eru þau mörg og smá (þorskfiskar t.d.), þar sem afkoman er trygg eru eggin fá og stór (laxfiskar t.d.) og fæst eru egg þeirra fiska sem klekja þeim inni í sér eða sínu (skötur) eða í munninum (hitabeltisfiskar).

Rangt er að mikil stofnstærð tryggi hámarksafrakstur fiskstofns. Afraksturinn ræðst af nýliðun og vexti og því hvert framleiðslan fer. Mikilvægi þess hvert framleiðslan fer, er e.t.v ekki leikmönnum augljós en má skýra með því að ef ekkert er veitt er afraksturinn enginn, alveg sama hve framleiðslan er mikil. Kjúklingabóndi sem ætlaði að auka framleiðslu sína getur ekki gert það með því að kaupa fleiri unga ef hann kaupir ekki einnig meira fóður. Framleiðsla hans byggir á því að kaupa unga og fóður og slátra strax og fuglarnir eru orðnir nógu stórir. Ef hann getur ekki keypt unga (nýliðun) eða fóður (fæðuframboð) gagnar honum lítið að draga úr slátrun til að auka framleiðsluna.

Horfur 1979

"Endurmat á stærð hrygningarstofnsins bendir til þess að hann hafi verið 165 þús. tonn í upphafi vertíðar í stað 180 þús eins og spáð hafi verið. Klak tókst þó allþokkalega."

"Þó ekki hafi verið sýnt fram á að núverandi hrygningarstofn sé orðinn ófær um að gegna endurnýjunarhlutverki sínu, þá er ljóst, að ástand stofnsins og veiðanna sem á honum byggjast eru með öllu óviðunandi. Hafrannsóknastofnunin ítrekar fyrri skoðanir sínar og telur brýnt að byggja upp hrygningarstofninn og þorskstofninn í heild til þess að tryggja viðkomu hans og afrakstur um alla framtíð."

"..1975 árgangurinn er talinn allt að helmingi stærri en 1974 árgangurinn var í fyrra."

"Hafrannsóknastofnunin leggur til að þorskafli ársins 1979 fari ekki fram úr 250 þús. tonnum og árið 1980 ekki fram úr 270 þús. tonnum."

Aflinn 1979 varð 368 þúsund tonn, 118 þúsund fram úr

Enn er alið á óttanum og talað um að þorskur geti hætt að "endurnýja" sig. Búið er að gleyma því að hann hefur plummað sig í miljónir ára.

Horfur 1980

" Það hefur oft verið bent á það í skýrslum Hafrannsóknarstofnunarinnar að hrygningarstofni (þ.e. 7 ára þorskur og eldri) hefur hrakað meira en heildarstofninum, eða úr 1 milljón tonna á árunum 1957-1959 í 165 þúsund tonn 1978."

... Hrygningarstofninn er áætlaður tæplega 300 þúsund tonn í ársbyrjun 1980 en mun, ef ekki verða hertar takmarkanir frá því sem var á síðastliðnu ári, minnka niður í 200 þúsund tonn í ársbyrjun 1981."

"Þær takmarkanir, sem beitt hefur verið, hafa því fyrst og fremst komið yngstu aldursflokkunum til góða, eins og tafla 1 um fjölda landaðra þorska eftir aldri árabilið 1970-1979 ber vitni. Hér er um að ræða áhrif frá stækkun möskvans í 155 mm árið 1977 og lokun svæða um lengri eða skemmri tíma. Auk þess minnkaði sókn í smáþorsk við brotthvarf erlendra veiðiskipa af Íslandsmiðum."

"Enda þótt nokkrir togarar bættust í flotann á tímabilinu janúar-október1979, dró úr sókn togara í þorsk á árinu 1979. Áætlað er að sóknarminnkunin hafi numið 7% PC%. Þetta hafði í för með sér aukinn afla á sóknareiningu hjá togurunum, eins og búist var við. Frekari sóknarminnkun í ár myndi leiða til enn aukins afla á sóknareiningu."

"Rannsóknir á þorskungviði og seiðarannsóknir benda til þess að 1976 sé mjög sterkur árgangur eða um 350 milljónir nýliða og því meðal sterkustu árganga síðan 1952...Þessi breyting til batnaðar er aðalforsenda þess að tillaga fyrir leyfilegan hámarksafla árið 1980 er nú hærri en fyrir ári síðan, þrátt fyrir mikinn afla umfram tillögu um leyfilegan hámarksafla á árinu 1979."

"Seiðarannsóknir benda til þess að árgangar 1978 og 1979 séu nálægt meðallagi."

"Hafrannsóknastofnunin ítrekar fyrri skoðanir og telur brýnt að byggja upp hrygningarstofninn enn frekar til að tryggja..."

"..leggur því til að þorskafli ársins 1980 verði takmarkaður við 300 þúsund tonn."

"..1976 árgangurinn er talsvert sterkari en 1975 árgangurinn var í fyrra.

Aflinn 1980 varð 435 þúsund tonn, 135 þúsund tonn fram úr

Hér tala þeir um að aðgerðin, að draga úr afla á smáfiski, hafi heppnast og eru greinilega ánægðir með aðgerðirnar. Afli á sóknareiningu hjá togurum hefur aukist og mun halda því áfram, segja þeir. Þá kemst í umræðuna hinn frægi þorskárgangur frá 1976, sennilega sá mest umtalaði í sögunni.

Horfur 1981

"Á árunum 1978 og 1979 fóru fram umfangsmiklar lengdar og þyngdarmælingar þorsks og í framhaldi af þeim var sambandið milli aldurs og þyngdar þorsks endurskoðað. Þetta endurmat ásamt endurmati á sókn og árgangastyrkleika gefur til kynna að heildarstofnstærðin, þ.e. 3 ára þorskur og eldri hafi verið tæp 1660 tonn árið 1980 og hrygningarstofn, þ.e. 7 ára fiskur og eldri rúmlega 400 þús tonn. Fyrir einu ári síðan bentu stofnstærðarútreikningar til þess að heildarstofninn yrði um 1.500 þús tonn á árinu 1980 og hrygningarstofninn var talinn um 300 þús tonn. Mismun þennan má að miklu leiti rekja til mun sterkari gangna af hrygningarfiski frá Grænlandsmiðum en gert hafði verið ráð fyrir."

"Samkvæmt rannsóknum á þorskungviði og seiðarannsóknum er árgangurinn frá 1976 um 375 milljónir nýliða. Sá galli er á gjöf Njarðar, að fiskur af þessum árgangi hefur ekki veiðst í í því hlutfalli við stærð árgangsins, sem vænta hefði mátt, miðað við reynslu fyrri ára."

...."Síðast en ekki síst er þess að geta, að vaxtarhraði árgangsins hefur verið nokkru minni en annarra árganga síðan 1972. Hægari vöxtur þessa árgangs verður auk þess vart túlkaður á annan veg en þann, að hér sé um óvanalega sterkan árgang að ræða"

...."Há meðalnýliðun 1971-80 ræðst einkum af tveim mjög sterkum árgöngum árið 1973 og væntanlega árið 1976. Síðustu 3 áratugina hafa tveir jafn sterkir árgangar ekki komið fram með svo stuttu millibili og raun er í þessu tilviki."

"Árlegur 450 þús. tonna þorskafli leiðir til sífellt minnkandi heildarstofns, þrátt fyrir bærilega bjartsýni um stærð árgangsins frá 1976. Hámarksafrakstur fæst ekki úr stofninum, fyrr en heildarstofnstærð er orðin 2.100-2.200 þús. tonn og næst því aldrei með þessarri fiskveiðistefnu. Hrygningarstofninn vex þó næstu árin á meðan árgangsins frá 1976 nýtur við, en minnkar síðan á nýjan leik."

"Verði aflinn takmarkaður við 400 þús. tonn, fer þorskstofninn vaxandi næstu ár, einkum hrygningarstofninn, ef forsendur um stærðir árganga eru nærri réttu lagi." "Hafrannsóknastofnunin leggur áherslu á, að þorskstofninn verði byggður enn frekar upp á næstu árum og veiðar því takmarkaðar á árinu 1981 við 400 þús. tonn."

Aflinn 1981 varð 469 þúsund tonn, 69 þúsund framúr.

Fyrsta setningin vekur athygli. Þarna er verið að segja frá því að þorskur hafi ekki verið viktaður um langt árabil. Svo var gert "átak" í að vikta fisk svo leiðrétta mætti töflur um þyngd miðaða við lengd aftur í tímann. Til vorkunnar má segja að ekki var búið að finna upp sjóvogina á þessum tíma, en ekkert var til fyrirstöðu að vikta fiskinn í landi, ef það hefði verið talið mikilvægt. Ljósglampinn sem 76- árgangurinn gaf er farinn að fölna, en menn ekki búnir að gefa upp vonina, því þeir segja að árgangurinn sé hægvaxta og það sé til marks um að hann sé "óvanalega sterkur". Þeir áttu nú heldur betur eftir að afneita þessu seinna meir, og gera reyndar enn, að vaxtarhraði standi í öfugu hlutfalli við stofnstærð. Þrátt fyrir þetta leggja þeir til að enn skuli byggt upp. Þeir hækka tillögurnar og eru greinilega ánægðir með stöðuna.

Horfur 1982

"Vegna aukinnar möskvastærðar hefur aldursdreifing þorskaflans breyst allverulega undanfarinn áratug. Á árunum 1971-1975 var möskvastærð í botnvörpum hér við land 120 mm og árlegur meðalfjöldi, sem landað var af þriggja ára þorski á þessu tímabili, var 20.7 milj. fiska. Á árunum 1977-1981 var möskvastærð 155 mm og þá var árlegur meðalfjöldi af lönduðum þriggja ára fiski aðeins 4.4 miljónir. Áhrif svæðalokana verða ekki mæld í tölum, en þau eru án efa veruleg."

..."Athyglisvert er, að bráðabirgðaniðurstöður benda til þess, að dregið hafi úr vaxtarhraða þorsks á s. l. ári. Hugsanleg skýring er minna framboð af fæðu, en frekari rannsóknir munu ef til vill skýra þetta nánar."

..."Tvær undanfarnar vetrarvertíðir suðvestanlands reyndust mjög góðar og er ljóst, að mun meira af þorski kom til hrygningar, en búist var við. Þessa auknu fiskgengd á hrygningarstöðvunum má annars rekja til árangurs friðunaraðgerða undanfarinna ára, en þó aðallega til mikilla þorskgangna frá Grænlandsmiðum. Friðunaraðgerðirnar hafa skilað þeim árangri, að fiskveiðarnar höggva nú minna skarð í hvern árgang en áður."

.."Árgangurinn frá 1976 kom loks fram í afla fiskiskipa á árinu 1981 í þeim mæli að telja má staðfest, að hann sé a.m.k. sterkur og að líkindum mjög sterkur, eins og nýliðunarrannsóknir (seiðarannsóknir og rannsóknir á þorskungviði) hafa lengst af bent til síðan sumarið 1976."

.."Eins og er getið hér að framan þá hefur minna verið landað af 1976 árganginum stóra en reiknað var með og er gert ráð fyrir því hér, að hann hafi fengið meiri vernd sem 5ára þorskur en aðrir árgangar, m.a. vegna hægari vaxtar, en þó aðallega vegna aukinnar hlutdeildar eldri þorsks í stofninum."

..."Hafrannsóknastofnunin leggur því til að aflinn 1982 miðist við 450 þús. tonn."

Aflinn 1982 varð 388 þús. tonn, niður um 62 þúsund tonn.


Veiðar umfram ráðgjöf

Nú klikkaði heldur betur hjá þeim: Sjá má hvernig þorskveiðarnar höfðu farið fram úr ráðgjöfinni til 1981, alls 380 þúsund tonn í fjögur ár. Þrátt fyrir þetta, vondu strákarnir veiddu meira en þeir máttu, var Hafró alltaf að bæta í ráðgjöfina. En árin 1982 og 1983 varð veiðin minni en lagt var til. Þetta var ekki vegna þess að ráðamenn eða sjómenn hafi verið svona kurteisir. Þeir gátu ekki veitt meira þrátt fyrir að sótt væri af öllu afli. Hafró ofmat stofninn, eða sá ekki hrun fyrir. Ekki kom það að sök, stofninn verndaði sig sjálfur, dreifði sér og varð óveiðanlegur. Það getur verið erfitt að "klára" fiskstofna.


Horfur 1983

"Á árinu 1981 dró úr vaxtarhraða þorsks um 10% miðað við árin 1979 og 1980, og hefur vaxtarhraðinn ekki aukist árið 1982.

..."Í skýrslu um ástand nytjastofna 1982 var talið, að árgangur 1976 væri ,, a.m.k. sterkur og að líkindum mjög sterkur" eða 350-400 milljónir nýliða.

..." Á grundvelli þessarar veiði verður stærð árgangsins verulega minni samkvæmt V.P.-greiningu (aldurs-afla aðferð) eða um 280 milljónir nýliða og myndi því flokkast sem allsterkur.

Ýmsar tilgátur eru hugsanlegar til skýringar á því, að þessi árgangur er eða virðist nú verulega minni en ætlað hefur verið allt síðan sumarið 1976:

Í fyrsta lagi hefur lágt hitastig sjávar árið 1982 verið nefnt sem hugsanleg skýring í þessu sambandi, en þó tæpast einhlít, þar sem sjávarhiti var síst hærri árið 1981, en þorskafli þó talsvert meiri en árið 1982.

Í annan stað kemur til álita, að þessi árgangur hafi orðið fyrir óvanalega miklum afföllum, sem þriggja og fjögurra ára undirmálsfiskur, af völdum fiskveiða. Umfangsmiklar mælingar veiðieftirlitsmanna um borð í fiskiskipum gefa þó ekki tilefni til að ætla, að sú hafi verið raunin."

..."Hafrannsóknastofnunin leggur því til, að hámarksafli þorsks árið 1983 fari ekki fram úr 350 þús. tonnum.

Aflinn árið 1983 varð 300 þúsund tonn, vantaði 50 þúsund tonn.

Horfur 1984

"Veiðarnar gengu það illa á árinu 1983, að aflinn náði ekki einu sinni 300. þús tonna markinu. Verður að fara allt til áranna 1947 og 1948 til þess að finna svo lágar aflatölur af þorski. Nýtt endurmat á stofnstærðinni, sem byggir m.a. á niðurstöðum hefðbundinnar og endurbættrar V.P. greiningar og samanburði á niðurstöðum úr stofnmælingaleiðöngrum í september 1983 og 1982, gefur til kynna, að ástand þorskstofnsinssé mun lakara nú en áður var áætlað. Áætlað er að heildarstofn í byrjun 1984 verði um 1.130 þús. tonn.

Þessa hnignun stofnsins má rekja til þess, að löku árgangarnir 1977, 1978 og sérstaklega 1979 eru nú komnir í veiðanlega stofninn ásamt því að dregið hefur verulega úr vaxtarhraða þorsksins undanfarin ár. Þá virðist lítið um Grænlandsþorsk á miðunum hér."

" Sveiflur í vaxtarhraða fiska eru kunn fyrirbæri. Þeir umhverfisþættir, sem þar hafa áhrif, eru m.a. hitastig og fæðuframboð. Hin allra síðustu ár hefur dregið úr vaxtarhraða þorsks hér við land, þannig að meðalþyngd eftir aldri hefur fallið talsvert, þegar bornar eru saman meðalþyngdir árabilið 1977-1979 við bráðabirgðatölur 1983 (Tafla 1)."

&Thorn;yngd eftir aldri

Hér sést hve þorskurinn var orðinn léttur miðað við fyrri ár. Hann er ári lengur að ná fjórum kílóum og 7 ára þorskar eru nær tveimur kílóum léttari 1983 en þeir voru 1979. Gera má ráð fyrir auknum afföllum með hægari vexti svo ekki var að undra þótt afli hefði verið tregur eins og segir í skýrslu ársins 1984. Hér er árangur friðunarinnar að koma fram. Forsendan um að fæðuframboðið leyfði stækkun stofnsins stóðst ekki, með þessum afleiðingum. Athyglisvert er að ekki er minnst á ofveiði, fremur að hér sé um að ræða breytingar í umhverfisþáttum. Samt er lagt til að dregið verði úr veiðum til þess að rétta stofninn við. Og, - vonirnar sem bundnar voru við 76- árganginn eru brostnar. Sennilega varð hann hungrinu að bráð, og átti jafnvel sinn þátt í að skapa það.

....." Árið 1982 kom í ljós vísbending um, að árgangur frá 1976 væri ekki eins sterkur og lengst hafði verið ætlað. Niðurstöður frá 1983 eru á sömu lund og verður að telja fullvíst, að þessi margumræddi árgangur sé ekki nema allsterkur eða um 280 milljónir nýliða."

......"Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að stuðla að vexti þorskstofnsins í þeim tilgangi að auka afrakstursgetu hans í náinni framtíð. Þær niðurstöður sem nú liggja fyrir um ástand stofnsins benda til þess, að þessu markmiði verði ekki náð nema með því að takmarka þorskafla við um 200. þús tonn árið 1984."

Aflinn árið 1984 varð 284 þúsund tonn, 84 þúsund tonnum meiri en ráðgjöfin.

Horfur 1985

..."Fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar mótast af því langtímamarkmiði að draga úr sókn (fiskveiðidauða) í stofninn og stefna að nýtingu hans í námunda við kjörsókn. Í þessu sambandi þarf þó að taka tillit til ýmissa atriða m.a. gagnvirkra áhrifa fiskstofna.

Með því að takmarka aflann á næstu árum við 300 þús. tonn mun veiðistofninn vaxa nokkuð á árunum 1986-1988. Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að afli verði ekki aukinn þótt góðir árgangar séu væntanlegir í veiðistofninn heldur verði þeir nýttir til frekari endurreisnar hans. Hafrannsóknastofnunin leggur því til að þorskveiðar á árunum 1986 og 1987 verði takmarkaðar við 300 þús tonn. Rétt er að taka fram að forsendur um vöxt, nýliðun, kynþroska og göngur geta tekið verulegum breytingum frá ári til árs og er því sem fyrr árleg endurskoðun á stofnmati nauðsynleg."

Þetta er nú meira! Nú skal hætta að hugsa og ekki láta neitt trufla sig. Hafa bara fasta ráðleggingu havð sem tautar og raular. En, - nauðsynlegt er : "sem fyrr árleg endurskoðun á stofnmati". Það verður að halda vinnunni!

Ég verð að taka með að lokum hvað þeir sögðu um nýliðun 1985:

..." - Árgangur 1983 er nú talinn í meðallagi, eða um 220 miljónir nýliða. Þetta er heldur hærra mat en fram kom í síðustu skýrslu.

- Þorskseiði af árgangi 1984 fundust í miklu magni fyrir norðan land og austan í ágúst 1984. Bráðabirgðamat á styrk þessa árgangs sem eins árs ungviði í mars 1985 bendir til þess að hér sé ekki um mjög stóran árgang að ræða. Í framreikningum á stærð þorskstofnsins er gert ráð fyrir að árgangur 1984 sé 300 miljónir nýliða."

Síðar kom í ljós að þessir árgangar, 83 og 84, voru einir þeir sterkustu sem höfðu komið fram saman tvö ár, í allri rannsóknasögunni. Ekki var veiðandi fyrir smáfiski á Vestfjarðamiðum 1987 og skyndilokanir voru tíðar. Ég hafði það eftir togaraskipstjórum (Runólfi Guðmundssyni á "Runólfi" m.a.) að þessi fiskur hefði verið afskaplega horaður. Hann varð aldrei að neinu, veslaðist upp úr hungri í áframhaldandi uppbyggingu. Uppbygginguna má sjá í línuritinu hér efst á síðunni: Friðunin var keyrð áfram með handafli niður í 165 þúsund tonn 1995.

Afli og ráðgjöf

Hér má sjá ráðleggingar Hafró um afla hvers árs og það sem endanlega var veitt. Ráðleggingar hafa tilhneygingu til að "elta aflann, 1979 vill Hafró fara niður en aflinn fer upp, þá eltir ráðgjöfin, 1982 minnkar aflinn og Hafró eltir ári seinna. Árið 1984 eru þeir enn tregir hjá Hafró en aflinn fer upp og upp, Hafró líka en stoppar svo þrjósk í 300 þús tonnum 4 ár í röð. Þá var lagt mest kapp á að ná veiðunum niður með handafli (Þorsteinn Pálsson sýndi ákveðni og ábyrgð), til að byggja upp stofninn. Kerfið hafði sigrað.

Hafa menn svo lært eitthvað?

Nei (punktur)


Tilbaka