Hvers vegna sveiflast þorskstofnarnir?

Sveiflur í íslenskum, færeyskum og norskum þorskveiðum eftir Jón Kristjánsson. Kynnt á ráðstefnu (Torsk, klima, vandring) í Bergen 26. og 27. mars 1998 .

Aðferðir.

Gögn um fiskstofna eru ekki tölulega nákvæm og taka verður tillit til þess við úrvinnslu og túlkanir. Jafnvel aflagögn eru ónákvæm og kemur þar til að allur afli er ekki alltaf gefinn upp, ólöglegur afli er vantalinn og fiski er hent.Mynd Þyngd eftir aldri er gefin upp í kílóum en er í raun fundin út frá lengd án þess að tekið sé tillit til breytilegs holdafars. Þá er meðallengd aldursflokka ekki alltaf meðaltal af aldursgreindum fiskum heldur eru oft notaðir svo nefndir aldurs -lengdar lyklar til að aldurssetja alla lengdarmælda fiska. Þetta gefur skekkjur, sérstaklega ef vöxtur er hægur og margir aldursflokkar eru á tiltölulega þröngu lengdarbili. Stofnstærð, nýliðun og fleiri þættir eru byggðir á þessum ónákvæmu gögnum og því verður að nota allar tölur með varúð.Til þess að skýra stofnsveiflur er eðlilegt að notast við tilhneygingar (trenda) fremur en hreinar tölur. Til að draga fram sveiflurnar má nota keðjumeðaltöl. Þegar 9 ára keðjumeðaltal eru dregið frá 3 ára keðjumeðaltali koma fram þær sveiflur í íslenskum, færeyskum og norskum þorskafla frá 1955 sem sjá má hér á myndinni. Fram kemur viss hrynjandi í aflanum eftir að "truflanirnar" hafa verið fjarlægðar og aflinn settur upp sem frávik frá skammtíma (9 ára) meðaltali. Gera má ráð fyrir að í frjálsri sókn endurspegli aflinn stofninn, og líklega einnig þegar veiðum er stjórnað með aflamarki vegna þess að leyfilegur afli er tengdur stofnstærðarútreikningum.

Skýrastar eru sveiflurnar í færeyska þorskstofninum, reyndar eru þær með ólíkindum reglulegar.

Haldin var ráðstefna í Reykjavík á vegum ICES vorið 1993 sem fjallaði um þorsk og veðurfar og var þar reynt að tengja saman þessa tvo þætti. Þar héldu færeyskir fiskifræðingar erindi um sveiflurnar í færeyska þorskstofninum. Er skemmst frá því að segja að þeir kváðust ekki hafa fundið á þeim neinar haldbærar skýringar. Mér þótti þetta mjög áhugavert og eftir ráðstefnuna lagðist ég yfir færeysku gögnin til að reyna að finna á þeim þann flöt að þau dygðu til að skýra sveiflurnar. Árangurinn birtist í greininni sem hér fer á eftir:


Sveiflur í þorskstofninum við Færeyjar

Mikil kreppa var í nýlega í þorskveiðum við Færeyjar. Afli sem verið hafði að sveiflast frá 20-40 þúsundum tonna fór niður í 6 þúsund tonn 1992. Alþjóða Hafrannsóknarráðið lagði til að veiðarnar yrðu stöðvaðar svo stofninn byggðist upp og gæti gefið meira af sér til langs tíma litið, en Færeyingar kreistu út leyfi til að veiða 5000 tonn. Skyndilega fylltist allt af fiski og Færeyingar tóku upp sóknarstýringu og úthlutuðu afladögum. Þeir hafa veitt um 100.000 tonn umfram þessar ráðleggingar sl. 3 ár.

Ég hef skoðað þær sveiflur sem einkenna veiðarnar úr þessum stofni og fara niðurstöður hér á eftir. Upplýsingar og gögn eru aðallega sótt í greinar eftir færeyska sérfræðinga og voru birtar á ICES ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 1993. [Jakupsstovu, S. H. og J. Reinert 1993] og [Gaard, E. et. al. 1993].

Aflasaga

Þorskafli við Færeyjar 1904- 1997 sést á mynd 1. Ársaflinn náði hámarki milli styrjaldanna og sjá má að eftir seinna stríð verður árlegur afli aldrei eins mikill og hann varð mestur fyrir stríðið.

Mynd

Mynd 1. Þorskafli við Færeyjar 1904-1997.

Þetta bendir til þess að friðun stríðsáranna hafi ekki haft nein áhrif til stækkunar stofnsins. Sá fiskur, um 150 þúsund tonn, sem ekki var veiddur í stríðinu tapaðist. Reglulegar sveiflur í afla á síðari árum vekja athygli og áhuga á að finna út hvað valdi þeim.

Stjórn veiðanna

Breskir togarar veiddu upp að 3 sjómílum til 1955 þegar nýjir grunnlínupunktar lokuðu fjörðum og flóum. Sex sjómílna landhelgi kom 1959 en sums staðar voru svæði sem lokuð voru togveiðum og náðu út að 12 mílum. Tólf mílna landhelgi kom 1964 og svo 200 mílur 1978.

Trollmöskvi var 80 mm til 1967, þá var hann stækkaður í 100 mm. Stækkaði í 110 mm 1970, 130 mm 1974, 135 mm 1978, 155 mm 1990 en var svo minnkaður aftur í 145 mm sama árið.

Aflasveiflur eftir 1961

Eftir 1961 eru til gögn sem nota má til að skýra sveiflur í þorskstofninum. Þar sem vöxtur fiska er summa þeirra þátta sem áhrif hafa á viðgang þeirra er vert að skoða hann nánar.

Mynd

Mynd 2. Þyngd 3-6 ára gamals þorsks við Færeyjar1959-1992.

Vöxtur

Meðalþyngd 3-6 ára fiska eftir aldri frá 1959 er sýnd á mynd 2. Hún er mjög breytileg en jafnt fallandi frá 1959, og með lægsta móti hin síðustu ár. Þyngd eftir aldri segir lítið um vöxt í einstökum árum því þyngdin er summa vaxtar margra ára. Niðurstöður fyrri rannsókna hafa verið að ekki væri unnt að finna neitt samhengi milli vaxtar og stofnstærðar, og ekki tókst heldur að finna neitt samhengi milli sveiflanna og umhverfiþátta [Jakupsstovu, S. H. og J. Reinert 1993]

Úrvinnsla vaxtargagna

En það er unnt að vinna frekar úr þessum meðalþyngdum, því reikna má út árlegan vaxtarhraða hvers árgangs með því að skoða þyngdaraukninguna sem verður milli ára. Fjögurra ára fiskar eru t.d. 2.5 kg árið 1977. Ári síðar eru þeir orðnir 3.6 kg , 5 árs gamlir. Þeir hafa því aukið þyngd sína um 1.1 kg eða 44 %. Til þess að kanna hvort breytingar í vexti séu reglulegar eru notuð þriggja ára keðjumeðaltöl, en þau minnka truflanir og eru oft notuð við rannsóknir á hitafari t.d. Árlegur vöxtur þriggja og fjögurra ára þorsks er sýndur á mynd 3.

Mynd

Mynd 3 a. Hlutfallslegur vaxtarhraði (G) hjá 4 ára færeyskum þorski 1961-1991.

Vaxtarsveiflur

Sjá má að vöxturinn breytist mjög reglulega, auk þess sem hann hefur verið almennt fallandi frá 1961. Undantekning er frá reglunni var á árunum 1981-84 en þá "seinkaði" falli í vextri um 3 ár.

Mynd

Mynd 3 b. Hlutfallslegur vaxtarhraði (G) hjá 3 ára færeyskum þorski 1961-1991.

Nýliðun

Nýliðun í stofninn hefur verið reiknuð út frá 1961. Hún er sýnd á mynd 4, jöfnuð með því að nota þriggja ára meðaltöl. Hér sjást einnig reglulegar 7-9 ára sveiflur. Sé nýliðun borin saman við vöxtinn má sjá að þessir þættir sveiflast saman. Góðir árgangar verða til þegar vaxtarskilyrði (vöxtur) eru góð.

Mynd

Mynd 4. Nýliðun 1961-1990 (2 ára skv. VP-greiningu).

Mynd

Mynd 5. Nýliðun (svört lína) og vöxtur (blá lína) 1961-1990

Afli

Afli frá 1991, þriggja ára meðaltöl, sést á mynd 6. sem óbrotin lína. Brotnu línurnar sýna vöxt, sú efri, og nýliðun, neðri línan. Allt sveiflast í sama takti, en aflinn er í mótfasa við vöst og nýliðun. Afli er að hluta til háður stofnstærð (í sóknarmarki) sem aftur er háð nýliðun og vexti. Það er eðlilegt að afli sé tengdur vexti og nýliðun í öfugum fasa.

Mynd

Mynd 6. Afli (rauð lína), vöxtur (blá lína) og nýliðun (svört lína) hjá færeyskum þorski 1961-1992. Aflinn (stofninn) er í mótfasa við vöxt og nýliðun sem eru í sama takti

Niðurstaða

Vöxtur einstaklinga og nýliðun í stofninn eru í í öfugu hlutfalli við stofnstærð. Þegar stofninn er stór er vöxtur lélegur, nýliðun lítil og öfugt. Stofninn er í ójafnvægi og sveiflast reglulega. Þorskurinn sjálfur ræður þróuninni með því að éta sig út á gaddinn og deyja síðan úr hungri. Stofninn verður of stór, samkeppni vex, náttúruleg afföll aukast, stofninn minnkar og aflinn minkar í kjölfarið.

Þá fer allt af stað aftur: Vaxtarskilyrði verða góð þegar stofninn er orðinn lítill, nýliðun eykst, fiski fjölgar, stofninn stækkar o. s. frv.

Umræða

Það er langt síðan bent var á að nota mætti vaxtarhraða til að stjórna fiskveiðum vegna þess að neikvætt samband væri milli vaxtar og stofnstærðar [Hofstede 1974]. Væri vöxtur hægur ætti að auka veiðar og öfugt. Niðurstöður þessarar athugunar styðja þetta eindregið. Mér er þó til efs að bíða megi með að auka sókn í þorskinn við Færeyjar þar til draga fer úr vexti. Miklu fremur virðist að auka eigi sóknina verulega um leið og vart verður við að stofninn sé að stækka og reyna þannig að draga úr sveiflunni og bjarga afla sem annars myndi tapast.

Ef þessar ályktanir eru réttar er það af hinu verra að draga úr sókn þegar vaxtarhraði minnkar og stofninn einnig. Það gerir sennilega illt verra og sveiflur verða dýpri. Sú aðferð er þó ríkjandi og það kallast að "byggja upp stofninn". Færeyingum var ráðlagt þetta 1993 en þeið hundsuðu þá ráðgjöf og uppskáru mikinn afla, sérfræðingum til mikillar furðu.

Afli við Færeyjar er nú mjög góður. En í ljósi þess sem hér hefur komið fram eru litlar líkur til að það standi lengi. Allt bendir til þess að á næsta ár fari aflinn minnkandi og ný kreppa verði strax eftir aldamót, eftir 3 ár eða svo. Vil ég biðja menn hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara að kenna ofveiði um þá lægð.

Heimildir:

Gaard, E., B. Hansen and J. Reinert 1993. Physical effects on recruitment of Faroe Plateau cod. ICES 1993/CCC Symposium/No.36.

Hofstede, A.E. 1974. The application of age determination in fishing management. In Bagenal, T.B. (Ed.), Ageing of Fish, Unwin Brothers, 206-220.

Jákupsstovu, H. í and J. Reinert 1993. Fluctuations in the Faroe Plateau Cod Stock. ICES 1993/CCC Symposium/No. 11.


Aftur á heimasíðu