Milljón tonna þorskstofn hefur horfið.

(Finnandi láti kanadísku fiskveiðiráðgjafanefndina vita.)

Árið 1991 gáfu kanadískir fiskifræðingar út að þorskstofninn við Nýfundnaland væri 1,1 milljón tonn (CAFSAC Research Document 91/53). Þeir gerðu ráð fyrir að stofninn stækkaði í 1,2 milljónir tonna 1994 ef veidd yrðu árlega rúm 200 þúsund tonn. Útlitið var bjart enda sögðu þeir að árgangarnir frá 1986 og 1987 væru yfir meðaltali, reyndar að árgangurinn frá 1987, sem var þriggja ára 1990, væri sá stærsti sem fram hefði komið í 13 ára rannsóknum. Rúmu ári síðar voru allar veiðar bannaðar við Nýfundnaland og nú heyrist að þorskstofninn sé nánast horfinn.

Í byrjum áttunda áratugarins var farið að reyna að byggja upp stofninn með því að draga stórlega úr veiðum. Mætti ætla að þá hafi aflabrögð verið orðin léleg og erfitt að ná í fiskinn. Svo var þó ekki. Togaraafli var svo mikill að vandræði sköpuðust af. Eftir 1980 upphófst vandamál sem náði hámarki 83-84: Togararnir fóru að fá svo stór höl að þeir réðu ekki við þau, 25 tonna höl voru algeng og oft kom fyrir að trollið náðist ekki inn. Flotinn var að taka í notkun kör og kassa og við það minnkaði plássið um borð. Mikill tími fór í aðgerð svo fiskurinn vildi skemmast og henda þurfti hluta aflans. Úrkast jókst frá 0.5% 1970 í 11% af þyngd árið 1986.

Reynt var að bregðast við þessu með því að stytta togtímann. Það var þó ekki nóg því stundum þurfti ekki nema rétt að taka í blökk til þess að trollið fylltist. Möskvi var stækkaður, frá 128 mm 1980 í 135 mm eftir 1983 og leggmöskvi tekinn í notkun svo meira slyppi út. Reynt var að breyta veiðihæfni trollsins svo fiskur slyppi út eftir að visst magn væri komið í það. Svokallaðir gluggar, tæplega fermeters stór göt, voru settir á belginn til þess að reyna að takmarka afla í hali við 12 tonn sem þótti viðráðanlegt. Notkun glugga hófst 1983 og höfðu þeir verið teknir í notkun hjá 78% skipa 1988. Árangurinn af notkun glugganna var ekki ótvíræður, stundum voru þeir ekki rétt staðsettir og þeir gátu stíflast. Eins saumuðu menn þá saman aftur ef lítið var að hafa um sinn (CAFSAC RD. 89/32).

Fiskveiðistjórnin gekk út á að draga úr veiðum til þess að stækka stofninn. Svo kom skellurinn: Nýfundnalandsmiðum var lokað fyrir öllum veiðum 1992 vegna meintrar ofveiði. Togurum EB sem veiddu utan landhelgi (5% landgrunnsins) var kennt um að hafa veitt upp þorskinn.

Líklegri ástæða: Stofninn féll úr hor. Stór stofn af hægvaxta fiski (9 ára þorskur við Labrador var 1,9 kg) þoldi ekki aukna nýliðun samtímis lítilli veiði, stofninn át sig út á gaddinn.

Forstjóri Hafró sagði nýlega í blaðagrein að þorskurinn hefði flutt sig út fyrir landhelgina og þar hefðu EB skipin veitt hann. Milljón tonn af þorski veidd upp á tveimur árum! Þurft hefði 200 togara til að veiða fiskinn og 30 fraktskip í stöðugum flutningum allan ársins hring til að flytja hann til Evrópu. Hann myndi hafa rústað fiskmarkaði í Evrópu en gerði hann það? Nei, þessi fiskur hefur nefnilega hvergi komið fram og hvergi eyðilagt fyrir okkur markaði. Þegar menn segja að ofveiði hafi hafi klárað fiskinn verður aflinn þó fjandakornið að hafa komið einhvers staðar fram.

(Birt í DV 29/3 1994, rætt í RÚV kl. 1300 2/4 1994)


Aftur á forsíðu