Jón Kristjánsson og Tumi Tómasson:

Gagnrýni á stefnu í fiskveiðum.

Samantekt handa blaðamönnum á fundi í Norræna húsinu 14. janúar 1984

Fátt hefur vakið meiri umræðu og svartsýni en hin svarta skýrsla sem Hafrannsóknastofnunin sendi frá sér í nóvember. Megininntak hennar var að minna væri af þorski í sjónum og hann yxi nú hægar en áður. Því skyldi dregið úr afla á árinu 1984. Þetta fékk okkur heldur betur til að sperra eyrun, því við höfum í mörg ár verið að láta menn grisja silungsvötn til þess að þeir fiskar sem eftir verða fái meira að éta og vaxi betur.

Hvað er það í sjónum sem réttlætir gagnstæðar aðgerðir? Stærð og samsetning fiskstofns almennt er háð fjórum þáttum: Þeir eru:

Afrakstur stofnsins fer eftir stærð hans (fjölda fiska) svo og vexti einstaklinganna. Miðað við stöðugt fæðuframboð er vöxtur í öfugu hlutfalli við fjölda einstaklinga. Mesta framleiðni í kílóum á flatareiningu á ári fæst i fiskstofni sem er svo þéttur að vöxtur sé í meðallagi (hvorki of hraður né of hægur).

Sem dæmi má taka að þegar stofninn er of lítill (ofveiddur) eru fáir og smáir fiskar sem vaxa hratt. Samt er heildar þyngdaraukning stofnsins lítil vegna fæðar einstaklinganna. Þegar stofninn er of stór (vanveiddur) eru fiskarnir margir og smáir en vöxtur þeirra hægur. Hér fer meiri hluti fæðu sem aflað er í viðhald og leit að fæðu. Því verður heildar þyngdaraukning stofnsins lítil við þessar aðstæður. Einhvers staðar þarna á milli er heppilegt að halda stofnstærðinni, þá fæst hámarks þyngdaraukning, og þar með hámarks afrakstur. Stofninn er í kjörstærð og vöxtur einstaklinga í meðallagi.

Vegna flókins og breytilegs sóknarmunsturs og dreifingar fisksins í sjónum er erfitt að fá jafnvel afstæðan mælikvarða á stofnstærð. Þá er einnig svonefnd V.P. stofnmæling þeim annmörkum háð að hún mælir stofnstærð aftur í tímann, þannig að þegar upp er staðið heyrir stofnmatið fortíðinni til. Hins vegar er tiltölulega auðvelt að meta vaxtarhraða á hverjum tíma en hann má einmitt nota í sama tilgangi, þ.e. meta hlutfallslega stofnstærð við ríkjandi aðstæður, því vaxtarhraði og stofnstærð eru nátengdir þættir.

Sem viðmiðun verður að vera til vaxtarstaðall fyrir viðkomandi fiskstofn, þ.e. vöxtur frá þeim tíma þegar góð uppskera fékkst. Ef vaxtarhraðinn er meiri en staðallinn segir er rétt að draga úr sókninni og beina henni fremur í stærri fisk, þar sem þyngdaraukning einstaklinga vegur upp á móti þeim sem tapast vegna náttúrulegra affalla (dauða). Ef vaxtarhraði minnkar þá ber að auka sókn, sérstaklega í smáfisk. Þetta er réttmætt þó svo að náttúruleg dánartala væri óháð vaxtarhraða, en yfirleitt eykst náttúruleg dánardala þegar vaxtarskilyrði versna og er það því enn brýnna að auka sókn i smærri fisk þegar vaxtarhraði minnkar.

Þegar fiski fækkar verður til meiri fæða handa hverjum og einum, en jafnframt eykst fæðuframleiðslan sjálf, enda gilda sömu lögmál um stofn og framleiðslu fæðudýra og fiskinn sjálfan. Sem dæmi má taka, að ef þorskurinn ofbeitir aðalfæðu sína loðnuna, nær hún ekki að fullnýta sína fæðu, dýrasvifið og plöntuframleiðslan (frumframleiðnin) kemst ekki öll til skila. Ef ástandið væri svona, mætti auka loðnuafla, með því að fækka þorski.

Þetta er einungis nefnt sem dæmi um það hvernig allir hlutar vistkerfisins hanga saman, og að það verði að skoða þá í samhengi. Hafa ber það hugfast að þættir aðrir en stofnstærð fisks hafa einnig áhrif á umhverfi þeirra svo sem veðurfar og hafstraumar, sem breytast frá ári til árs og sveiflast jafnvel í enn lengri tímabilum. Þess vegna verður að miða nýtingarstærð fiskstofna við rikjandi aðstæður, en ekki við fyrirfram ákveðna stærðsem eiginlega er ekki annað en meðaltal frá liðnum árum.

Það var tekin upp sú stefna á árunum 1976 og 77 að takmarka veiðar á smáfiski í þeirri von að hún skilaði sér í aukningu á stórum fiski síðar. Forsendan hlýtur að hafa verið sú, að fæðudýr fiskstofna væru ekki fullnýtt. Áhrifaríkasta aðgerðin til friðunar smáfisks er að dómi sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar stækkun möskva í poka úr 120 mm í 155 mm. Auk þess kemur til friðun allstórra svæða fyrir togveiðum allt árið svo og skyndilokanir.

Síðan 1977 hefur sú þróun orðið að dregið hefur úr vexti þorsksins þannig að allir árgangar hafa lést að jafnaði um 4% á ári. Er nú svo komið að sjö ára þorskar eru jafn þungir (4,01 kg) og sex ára þorskar voru að jafnaði árin I971-76 Vegna þessa hæga vaxtar "vantaði" 100 þús. tonn upp í ársaflann 1983.

Samkvæmt því sem áður sagði um nýtingu fiskstofna virðist eðlilegt að bregðast við vaxtarminnkuninni með því að auka sókn í smáfisk. En Hafrannsóknarstofnun heldur fast við smáfiskafriðun og leggur til að dregið verði úr sókn. Þetta fáum við alls ekki til að ganga upp og það er í andstöðu við þær ráðleggingar sem við höfum gefið til að auka nýtingu silungsvatna. Þá finnst okkur hæpið að nota reiknilíkan til að reikna út framleiðslu þorsks í sjónum, án þess að taka tillit til þess að þorskurinn er hluti af sínu eigin umhverfi og þættir eins og vaxtarhraði, náttúruleg dánartala og nýliðun eru allir tengdir stofnstærð. Útreikningur sem grundvallast á óbreytanleika þessara þátta eru óraunhæfir og beinlínis hættulegir.

Þetta er vaxtarlínuritið sem Hafró birti 1983. Síðar voru tölurnar 'endurreiknaðar' til að fegra myndina.

Nota má vöxtinn til að meta ástand stofnsins.

Til baka á forsíðu