- Þróun laxveiða 1970-2006 -

Í tilefni umhverfisráðstefnu Færeyjum 2008

Umhverfisráðstefna var haldin í Færeyjum 7. og 8 apríl 2008. Þar töluðu m.a. Al Gore, Orri Vigfússon og Bogi Hansen haffræðingur.

Í frétt í færeyskum fjölmiðlum sagði að Orri hefði orðið þekktur í Færeyjum eftir að hann keypti upp laxakvóta, m.a. í Færeyjum til þess að stöðva úthafsveiðar eftir laxi. Í fréttinni sagði svo: "Markmiðið var að fá meiri lax í árnar á Íslandi - og það tókst".

Þetta er nú ekki sannleikanum samkvæmt, því ekki urðu nein umskipti í laxveiðum við að Færeyingar hættu sínum laxveiðum. Auk þess kom ekkert fram sem benti til þess að íslenskur lax væri veiddur við Færeyjar. Það fannst t.d. ekki einn einasti línuöngull í laxi á íslandi en mjög margir komu fram í Noregi. Laxinn var veiddur á línu í yfirborðinu og það kom eðlilega oft fyrir að hann sleit tauminn og merki þar með sjálfan sig með önglinum. Á þessum tíma stakk ég upp á því við Veiðimálastjóra að við gerðum út skip til að merkja lax með því að nota merkta öngla og veika tauma. Ekki vildi hann það, sagði að það væri ómannúðleg aðferð. En þessa aðferð notaði Árni Friðriksson til þess að merkja karfa, öðruvísi var það ekki hægt því hann lifði ekki að vera dreginn upp á yfirborðið. Maginn kom út úr honum vegna þrýstingsmunarins.

Einungis um tugur laxa sem merktir höfðu verið á Íslandi kom fram í Færeyjum, en á þessum árum var lax merktur hér í tug þúsunda vís í tengslum við hafbeitartilraunir alls konar, m.a. í sérstöku verkefni til að kanna áhrif veiða Færeyinga. Einn þeirra veiddist í færeyskri á og svo skemmtilega vildi til að laxastofn hennar varð til með innflutningi hrogna úr Elliðaánum. Ekki skrítið þó laxinn "leitaði upprunans". Ein ástæða óttans um að Færeyingar væru að veiða laxinn okkar var að mikil minnkun varð á smálaxagegnd 1980 og stórlaxi ári síðar, sérstaklega í ám N- og A- lands. Skýringin var sú að vorið og sumarið 1979 var afspyrnu kalt, nokkuð sem gerði að verkum að sjógönguseiði þroskuðust ekki nægilega til að geta gengið til sjávar. Þetta leiddi einnig til þess að seiðin sem áttu að koma úr hrogni þetta ár fundust ekki um haustið, árgangurinn því sem næst þurrkaðist út. Það kom ekki að sök, því fljótt gréri í gatið, seiðin sem komu árið eftir uxu mjög vel, og gengu því yngri til sjávar. Fækkun seiða leiðir einnig til minni affalla hjá þeim sem eftir lifa.

Lítum nú aðeins á aflatölur úr íslenskri laxveiði til þess að sjá hvort það sem sagt var um Orra, að aðgerðir hans hafi bjargað laxveiði á Íslandi, fái staðist.

Stangveiði, efri línan, og netaveiði, neðri línan, 1974-2006. Mikil lægð verður í laxveiði eftir 1979, hún réttir ekki við fyrr en 1986. Eftir það hefur verið sígandi niður í stangveiðinni, þrátt fyrir að dregið hafi mjög úr netaveiði vegna uppkaupa neta- í því skyni að auka stangveiði. Nýjasta nýtt er svo að veiða - sleppa. Toppinn sem verður 2005 má e.t.v. rekja til óvenju hagstæðs tíðarfars 2003 og 2004. Færeyingar hættu alveg veiðum 1993.

Hnignun laxveiðinnar

Heildarafli á laxi í ám og í sjó við norðanvert Atlantshaf hafur minnkað mjög frá 1970. Minnkunin er aðallega vegna samdráttar í atvinnuveiða, í hafi og í og við árósa. Þannig var árlegur afli um 12 þúsund tonn 1968-1975, þá fór að draga úr honum og var hann kominn niður í um 2000 tonn 2006. Síðan þá hafa 500 tonna reknetaveiðar við Írland verið stöðvaðar.

Þessi niðurskurður er til kominn vegna uppkaupa réttinda og áróðurs stangveiðimanna í þeim tilgangi að draga úr meintri "ofveiði", nokkuð sem átti að skila sér í auknum veiðum í ánum byggt á tvennum forsendum: Fá meira af laxi í árnar til að veiða hann þar og til þess að auka hrygningu og þar með seiðaframleiðslu. Stofnar myndu stækka og veiði í ám aukast, var sagt.

Þetta hefur ekki gerst. Afli hefur minnkað en stangveiði hefur ekki aukist. Sums staðar hefur hún minnkað, t.d. á Íslandi, staðið í stað, Skotland, minnkað, Noregur eða hreinlega horfið, N-Ameríka og víða í Kanada. Nýjasta aðgerðin til aukningar veiði er að "veiða og sleppa".

Laxaafli í og við N-Atlantshaf 1960−2005. Efst er N-Evrópa, næst S-Evrópa, þá N-Ameríka og neðst eru Færeyjar og Grænland. Þær veiðar eru hættar 1993. Þrátt fyrir þessa gríðarlegu minnkun sjávarveiði, virðist laxagegnd í ám ekki hafa aukist. Við stöndum hér frammi fyrir ótrúlegri þversögn: Því meira sem dregið er úr laxveiðum þeim mun minna verður af honum.

"Veiða - sleppa"

Nýjasta aðgerðin til aukningar veiði er að "veiða og sleppa". Þetta er tíska, sem byggir á því haldi manna að hrygning sé of lítil og með því að fjölga hrygningarfiski muni framleiðsla ánna aukast og veiðistofninn stækka þegar tímar líða.

Rétt er að skjóta því hér inn að lang flestir laxar hrygna aðeins einu sinni. Einungis örlítill hluti (< 5%) lifir af hrygninguna og aðra sjávardvöl. Þess vegna er ekki hægt að geyma laxinn milli ára. Lax sem ekki er veiddur kemur ekki í ána næsta ár.

Rúm 10 ár eru síðan þetta hófst fyrir alvöru, en það fer hrað vaxandi, ekki einungis á Íslandi heldur í kring um okkur beggja vegna.

Árangur lætur á sér standa, enda var vitað áður en lagt var af stað í þessa ferð að hérlendis hefur ekki nokkurn tíma nokkurs staðar mátt rekja lægð í framleiðslu til skorts á seiðum vegna ónógrar hrygningar. En það þýddi lítið að benda á þessi aðgerð myndi ekki skila árangri, - sportveiðimenn töldu sig vita betur. Hér á eftir er dæmi frá Skotlandi um að "veiða- sleppa" hafi ekki skilað sjáanlegum árangri. Sjá má það sama á Íslandi, ekki er hægt að sjá að laxveiði hafi aukist við auknar sleppingar á laxi.

Stangveiði á laxi í Skotlandi er 50-89 þúsund laxar á ári, svarta línan, Sleppingar á veiddum laxi (veiða -sleppa) hófust 1994 og hafa vaxið mjög þannig að nú er liðlega helmingi laxa sleppt aftur, bláa línan.
Þegar farið var að skrá veiði 1952 var stangveiðin 11% af heildarveiðinni en nærri 80% 2006. Þrátt fyrir að netaveiði hafi að mestu lagst af, hefur stangveiðin nær staðið í stað. Veiði virðist ekki aukast þótt helmingi veiddra fiska sé sleppt. Þetta virðist þó ekki eingöngu gilda um lax heldur flestar fisktegundir, s.b.r. þorskveiðar, sem eftir allar friðunaraðgerðirnar eru ekki orðnar nema svipur hjá sjón.

Sóknarminnkun í Skotlandi

Hér má sjá hve mikið hefur dregið úr atvinnuveiðum við Skotland. Sóknin hefur minnkað og aflinn einnig, aflinn í beinu hlutfalli við sóknina; sóknarminnkun = aflaminnkun. Þegar þetta er borið saman við efri myndina, sést að stangveiði breytist ekkert þótt hætt sé að veiða í net og gildrur.

Atvinnuveiðar: Svarta línan er sókn, fjöldi fastra veiðivéla (net og gildrur). Skalinn er til hægri, sóknin hefur minnkað úr 5000 gildru-mánuðum 1970 í 200 árið 2000.
Bláa línan er aflinn í þessi veiðitæki. Þó veiðarfærum sé fækkað eykst ekki afli á sóknareiningu, heldur minnkar hann alveg í takt við sóknina. Hann var 250 þúsund laxar árið 1950 en fellur jafnt í 20þúsund tonn árið 2000. Athyglisvert er að stangveiði vex ekki á þessu tímabili (efri myndin).

Margt er skrýtið

Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ég vona að þessi grein hafi vakið áhuga manna á að fræðast meira um lax- og fiskveiðar almennt. Það er nefnilega reynslan að margt fer öðruvísi en ætlað er og það er regla án undantekningar að; þegar dregið er úr veiðum minkar aflinn og stofninn einnig. Árangur af friðunaraðgerðum er alltaf öfugur við það sem ætlast er til og þarf ekki annað en líta á þorskveiðar við Ísland, og reyndar annars staðar við N-Atlantshaf til að sjá það.

Tilefni pistilsins var fullyrðing Orra Vigfússonar í tengslum við ráðstefnuna í Færeyjum. Menn geta svo velt fyrir sér hvort hún á við rök að styðjast. - Gert í maí 2008.

Til baka