2007 - Urriðinn á hellunni -

Þann 7. október 2007 rann upp fagur og bjartur dagur eftir langvarandi rigningar. Við hjónin brugðum okkur austur á Þingvöll að skoða haustlitina. Við kíktum einnig á Sogið til að sjá hvort búið væri að laga ósinn.

Það var ekki, allt eins og var, ófært fiski. Stór fiskur var að bylta sér ofan við ósinn í spegilsléttu vatni. Mér var litið á helluna neðan við lokurnar og viti menn, þar lá lík af stórum urriða. Ég óð út og náði í fiskinn. Hann var greinilega ný dauður, tálknin rauð og fiskurinn að byrja að stirðna. Þetta var 5 kílóa fínn fiskur!

Dauður á hellunni. Neðan við lokuna hægra megin, liggur dauður urriði. Fiskur kemst ekki óskaddaður undir lokuna á niðurleið og leiðin upp er öllum lokuð. Ábyrgur frágangur ekki satt?

Annað hvort hefur hann kramist undir lokunni, rotað sig á niðurleið eða drepist við að reyna að komast upp aftur. Litlir áverkar voru á honum, aðeins marinn um miðjuna, en ómöguleg að greina dánarorsökina. En dauður var hann, drapst við að reyna að fara ósinn. Heppni að finna hann, hefði ég komið seinna hefði vargurinn verið búinn með hann. Það er hlutaðeigendum til háborinnar skammar að ósnum skuli ekki vera komið í lag. Hvað með Þingvallanefnd? Landsvirkjun? Kannski þarf meiri rannsóknir?

Urriðinn og Sogið

Áður fyrr hrygndi Þingvallaurriðinn í og ofan við Sogið. Þegar Sogið var virkjað var því lokað með stíflu og vatnið leitt í jarðgöngum að Steingrímsstöð. Við það eyðilögðust hrygningarstöðvar urriðans í Soginu. Við rannsóknir 1973 kom í ljós að murtan hafði smækkað mikið frá mælingu úr afla  1952. Ég taldi þetta stafa af fækkun urriða í vatninu, sem vart hafði verið við fljótlega eftir virkjun, urriðinn hafði lifað af murtu, beitarálag á hana hefði minnkað og hún smækkað vegna fjölgunar í stofninum.

Í viðtali við dagblaðið Tímann sagði ég að við virkjun Sogsins hefði mönnum yfirsést hver áhrif þornun þess hefði á urriðastofninn. Hlaut ég bágt fyrir þetta viðtal hjá mínum yfirmanni, þáverandi veiðimálastjóra.

Sagði ég að það þyrfti að sjá Soginu fyrir lágmarksrennsli og ganga þannig frá ósnum að fiskur kæmist þar bæði upp og niður. Reyndar var í lögum, og er enn, að skylt er að byggja fiskstiga við svona aðstæður. Einnig vildi ég sleppa urriðaseiðum í vatnið og haustið 1973 náði ég um 20 þúsund urriðahrognum í Öxará og fór um helmingur þeirra í vatnið árið eftir sem stálpuð seiði. Afgangurinn fór aðallega í Skorradalsvatn og er þar nú sjálfbær stofn en urriði hafði ekki verið þar áður.

Seiðin sem sett voru í Þingvallavatn skiluðu sér í aukinni urriðaveiði nokkrum árum seinna. En ekkert var gert til að laga Sogið. Það var ekki fyrr en um 1993 að vatni var veitt í gamla farveginn. En það gleymdist að gera ósinn fiskgengan! Vatnið var tekið í gegn um lokumannvirki þar sem vatnið fór út í gegn um mjóa rauf undir lokunni. Stórfiski er hætt við að kremjast við lokuna og hann kemst alls ekki upp aftur, hvað þá smáseiðin. Reyndar er margra metra breið hella fyrir neðan lokuna og þar syndir enginn fiskur upp.

Fljótlega eftir að vatninu var á ný hleypt á Sogið, hóf Veiðimálastofnun rannsóknir í þeim tilgangi að endurheimta hrygninguna. En eftir tíu ár er allt við sama; vatn rennur um Sogið en ófiskgengt er upp og niður, ekkert hefur verið lagað þar. Alls konar rannsóknir í gangi en aðalatriðinu gleymt. Líklega er Veiðimálastofnun að búa sér til peninga með því að teygja á rannsóknum - án þess að krefjast nauðsynlegra ráðstafana svo fiskur meigi hafi frjálsa för um ósinn. Maður spyr sig, hvers vegna þessi linkind?