Loðnuraunir

Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta? - Svarið er nei.

Sífellt er talað um að friða þurfi loðnu til þess að þorskurinn fái meira að éta, en hann er nú með horaðasta móti, þyngd eftir aldri í sögulegu lágmarki að sögn Hafró. Þetta tal, um að friða loðnu í þágu þorsksins, byggist á vanþekkingu og skorti á rökrænni hugsun.

Loðnuát og hagkvæmni

Reynslan úr fiskeldi sýnir að fóðurstuðull loðnu er um 7 í lokaðri kví. Til þess að þyngjast um eitt kg, þarf þorskur í kví að éta 7 kg af loðnu. Í náttúrunni, þar sem þorskurinn þarf að eyða orku í að eltast við bráðina, má reikna með hærri fóðurstuðli, segjum 10.

Reikna verður með að þorskurinn geti ekki nýtt sér alla þá loðnu sem við veiðum ekki. Gefum okkur 60% nýtingu því það eru einnig aðrar fisktegundir að eltast við loðnuna.

Af þyngdaraukningunni sem verður á þorski er leyfilegt að veiða 25% og af því sem veitt er fer 20% í slóg og innvols. Lítur þá dæmið svona út miðað við 1000 kg av loðnu:

1000 kg óveidd loðna x 0.6 (nýting) x 1/10 (fóðurstuðull) x 0.25 (aflaregla) x 0.8 ( slægður fiskur) = 12 kg seljanlegur þorskur

Hlutfallið loðna/ þorskur, miðað við þessar forsendur, er um 100, því þarf þorskur að vera 100 sinnum verðmætari en loðna til að aðgerðin beri sig. Víðs fjarri er að svo sé.

Fóðrun og veiðitilraunir í vötnum

Þegar ég var að mæla með því að silungsvötn, sem voru full af smáum og horuðum fiski væru grisjuð, til að auka þrif og vöxt fiskanna, fékk ég gjarnan þá spurningu hvort ekki væri vænlegra að gefa fiskunum meira að éta með aðkeyptu fóðri í stað þess að veiða og fækka þeim. Svarið við þeirri spurningu var að það yrði aðeins til þess að FLEIRI yrðu svangir. Enda verið marg- sýnt fram á það með tilraunum að slík aðferð gengi ekki. Eina ráðið væri að auka veiðar á smáum fiski. Auk þess hefði verið sýnt með tilraunum að miklu meiri afli fengist úr vatni ef veiðiunum væri stýrt í smáfisk fremur en stóran fisk.

Við nánari skoðun er þetta rökrétt: Stærstu fiskarnir í hverjum stofni eru mjög fáir og með því að veiða aðeins þá fæst nær enginn afli miðað við stofnstærð. Þegar slíkri nýtingu var beitt gerðist einnig annað sem menn áttu ekki von á:

Fiskur í viðkomandi vatni fór almennt smækkandi svo stöðugt þurfti að minnka möskvann til að fá eitthvað. Jafnframt fór nýliðun vaxandi og smáfiski fjölgaði. Þetta endaði svo með því að vatnið varð fullt af horuðum tittum.

Þróunin varð alltaf sú sama í öllum vötnum; ef markvisst var sótt í stóran fisk jókst nýliðun sem leiddi til offjölgunar, vatnið fylltist af smáum horuðum fiski en stofninn minnkaði í þyngd, vegna þess að þessir allt of mörgu munnar gengu of nærri fæðudýrunum. Fæðuframleiðslan minnkaði því fæðudýrin voru ofbeitt.

Fyrst var ofveiði kennt um; afli hafði jú sífellt farið minnkandi, síðar komust menn að því sanna við að leggja smáriðin net, stofninn hafði ekki verið veiddur um of í venjulegum skilningi heldur hafði rangt sóknarmynstur, að stýra sókn í stærsta fiskinn, leitt til smáfisks og hungurástands.

Það sýndi sig að hægt var að laga þetta með því að grisja smáfiskinn. Þá var unnt, ef hægt var að veiða nógu mikið, að snúa þróunninni við.

Erfðafræðin

Eitt sinn héldu menn að erfðafræðinni væri um að kenna, fiskurinn væri orðinn úrkynjaður, en það reyndist ekki rétt því vöxtur lagaðist þegar veiðimynstri og veiðiálagi var breytt. Ættu menn að leggja niður slíkt tal um þorsk á Íslandsmiðum.

Hvaðan kemur loðnan?

Loðnan hrygnir við S- og V- ströndina að vori og seiðin dreifast með straumi kring um land. Ungloðan heldur sig á grunnslóð, landgrunninu, fyrstu tvö sumrin, gengur þá norður í höf og kemur aftur til hrygningar eftir rúmt ár. Það er sú loðna sem nú er veidd, veiðar á ókynþroska ungloðnu heyra nú orðið sögunni til.

Loðnan er mikilvægust þorskinum sem fæða á meðan hún er að alast upp á grunnslóðinni. Stóra hrygningarloðnan, sú sem ber uppi loðnuaflann, nýtist þorskinum hins vegar aðeins þann vetur sem hún gengur til hrygningar og þá aðeins þar sem hún gengur um. Oft étur þorskurinn yfir sig og því hlýtur hún að nýtast fremur illa til vaxtar auk þess sem þetta gerist á kaldasta tíma ársins.

Hver stjórnar loðnunni?

Því er gjarnan haldið fram að þorskur sé horaður vegna þess að það vanti loðnu - Er það ekki fremur svo að hlutfallslega stór þorskstofn sé horaður vegna þess að hann hafi gengið of nærri fæðu sinni, loðnunni, og minnkað þannig stofninn?

Sú staðreynd að þorskurinn nærist á uppvaxandi loðnu gerir það að verkum að það er í raun hann sem stjórnar því með áti sínu hve mikið af loðnu gengur norður í höf til að fita sig og koma síðan aftur til hrygningar við S-land.

Svartfugl lifir líka á loðnu og sandsíli og horaður svartfugl er merki um vöntun þessara tegunda. - Á sama svæði er horaður þorskur! Hver er sökudólgurinn?

Þorskveiðar fyrir N-landi hafa verið í lágmarki í tvo áratugi. Í kvótakerfi með takmörkuðum þorskafla geta menn ekki stundað veiðar á svæðum sem gefa nær eingöngu þorsk. Þorskkvótinn er notaður sem aðgangur að öðrum tegundum og er nú orðinn nánast sem meðafli. Þess vegna hefur þorskurinn óáreittur fengið að éta upp rækjuna, loðnuna og sandsílið e.t.v. líka, en ekki nýst okkur vegna þess hve staðbundinn hann er á uppeldistímanum.

Nú sem aldrei fyrr þarf að ræða vistfræði, samhengið í náttúrunni, og hætta að einblína á ofveiði. Hvernig væri að gefa þorskveiðar frjálsar um tíma á stórum svæðum fyrir N-landi og sjá hvað gerist?

Ég stakk upp á þessu við ráðherra 2001 en því var ekki gefinn gaumur, ekki einu sinni tekið til umræðu. Það má ekki rugga (kvóta) bátnum.

(Birt í Morgunblaðinu 6. júní 2007, í styttri útgáfu)


Aftur á forsíðu