Aflaráðgjöf Hafró ber vott um fádæma skort á fagmennsku og skort á sjálfsgagnrýni.

Eftir magurt kvótaár, gekk óvenju mikið magn þorsks til hrygningar. Menn sögðust ekki hafa orðið varir við jafn mikinn fisk svo árum skipti. Það varð þó ekki landburður af fiski, til þess var kvótinn allt of lítill, vertíðarflotinn reyndar að, engu orðinn. Fremur má segja að það hafi verið landgangur af þorski. Bátar voru að fylla sig í fjöruborðinu alls staðar.

Því var búist við aukningu á aflaheimildum enda aflabrögð verið góð og línuveiði afburðagóð.

Hafró fór í rall í mars eins og venjan er, í vitlausu veðri og niðurstaðan í takt við það, stofnvísistalan hafði lækkað um15%.

Minnkun aflaheimilda var í vændum en menn voru þó vongóðir að hún yrði ekki mikil því fiskur virtist um allan sjó. En því var ekki að heilsa, Skúlagatan lagði til 30% niðurskurð í þorski, auk samdráttar í ýsu, ufsa, kola, steinbít og fleiru sem menn tóku varla eftir, vegna svartnættisins í þorskinum.

Menn höfðu reyndar búið sig undir niðurskurð, því svo hefur virst sem mest tillit sé tekið til rallsins við stofnmatið og lítið tekið tillit til annara þátta svo sem aflabragða og reynslu sjómanna. Enginn átti þó von á svona miklum niðurskurði. Skýringin var að Hafró tók allt í einu upp hjá sjálfri sér að færa aflaregluna niður. Í stað þess að veidd væru 25% veiðistofnsins, vilja þeir nú aðeins láta veiða 20%. Kenna þeir um að allt of oft hafi verið farið fram úr tillögunum á liðnum árum og því að veiðin skríði oft upp að 30% þegar árið er gert upp.

Merkileg er þessi nákvæmni Hafró. Það er almennt álit að lítið sé að marka svona stofnmælingar, togararöll eins og þau eru gjarnan kölluð. Skekkjumörk eru mikil, menn tala um 20-50%. Þess vegna er ansi merkilegt að vera að hengja sig í að veiði hafi farið örfá prósent fram yfir ráðgjöf.

Hér um árið gagnrýndu Hafrómenn, með Gunnar Stefánsson í fararbroddi, Kanadamenn fyrir að stofnmælingar þeirra væru snar vitlausar, þess vegna hefðu þeir ekki séð að stofninn hefði verið kominn að fótum fram. Spurður þess hvort slíkt gæti gerst hér, var á Gunnari að skilja að þeir væru heimsliðið í stofnmælingum.

Skömmu síðar varð svo ofmatið fræga, þegar nokkur hundruð þúsund tonn af þorski "týndust". Heimsliðið gerði sem sagt grodda mistök, sem rétt áður höfðu verið talin ómögulegt. En nú eru þeir aftur orðnir heilagir, stofnmatið kórrétt upp á fisk.

Stofnmatið

Stofnmat Hafró fer þannig fram að togað er á liðlega 600 stöðum í kring um landið og það sem leitast er við að mæla er meðalfjöldi 1, 2, 3, ... ára fiska á togeiningu (togmílu eða togtíma), reiknað yfir öll miðin.

Þannig fengust í rallinu í vor 7,6 eins árs, 18,3 tveggja ára, 8,5 þriggja ára og 21.2 fjögurra ára þorskar að meðaltali á togeiningu. Þetta er vísitala, þ.e. hlutfallsleg viðmiðurnartala sem er svo síðar stillt af til að tengja hana "raunverulegri" stofnstærð. Þá er t.d. notuð VP greining, sem byggist á að greina landaðan afla eftir aldursflokkum, en það er yfirgripsmikið verk og felur í sér mjög miklar skekkur. Þannig má stundum finna fjóra árganga ýsu á lengdarbilinu 45-50 cm. Í rannsókn á línufiski sem verið var að loka á í Breiðafirði 2005 var meðallengd 4-8 ára þorska á lengdarbilinu 47-55 cm! Þá er lengd eftir aldri breytileg eftir svæðum og árstíma. Það er því líklegt að aldursskipting afla eftir aldri sé lítið meira en ágiskun.

VP greining mælir stofninn eftir á þegar flestir einstaklingar sem voru í stofninum árið sem greiningin tekur til eru dauðir. Á sínum tíma hættu menn að nota VP greininguna, því hún var ónákvæm söguskýring, og tóku upp - togararallið.

Skekkjan í rallinu

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að stofnmat rallsins byggist á því sem veiðist. Fiskur sem ekki veiðist, er t.d. uppi í sjó eða annars staðar, hann viktar ekkert inn í niðurstöðuna! Stofnmat rallsins er því ALLTAF lágmarkstala. Fiskur inni í fjörðum, uppi í fjörum og mestur hluti vertíðarfisksins telst ekki með. Ekki frekar en að fiskur við Færeyjar eða Grænland mælist í rallinu.

Það virkar því hlægilegt þegar sagt er að farið hafi verið fram úr ráðgjöf, sem byggir á svona hæpnum forsendum og er auk þess lágmarksmæling.

Sem dæmi um misheppnað stofnmat með botnvörpu má taka mat á stærð rækjustofnsins á Flæmska Hattinum, sem byggt var á aflabrögðum hluta togaraflotans meðan veiðar þar voru stundaðar af kappi.

Reiknað var út frá svæðinu sem varpan fór yfir, afla á togtíma og heildarsókn. Þá fékkst að rækjustofninn væri 25 þús. tonn og væri ekki í frásögur færandi nema að aflinn á svæðinu var 50 þús. tonn á ári og a.m.k. 5 árgangar í veiðinni. Þetta mat var notað við ráðgjöfina sem annað hvort var að hætta veiðum eða halda þeim í lágmarki. Árin 1995-2004 voru veidd 300 þús tonn umfram ráðgjöf og ekkert lát á afla, um 50 þús tonn á ári. Þarna var tekið hressilega fram fyrir hendurnar á fiskifræðingum NAFO, en m.a. Íslendingar koma þar að rækjuráðgjöf.

Þá er vert að benda á að árið 1996 var tekið upp svokallað haustrall. Rökin fyrir því að gera það voru að í mars væri þorskur á leið á hrygningarslóð, ferðaðist uppi í sjó og kæmi því síður fram í hinu hefðbundna vorralli. Svo kom í ljós að vísitalan úr haustrallinu var alltaf talsvert lægri en sú úr vorrallinu! En var ekki verið að mæla sama fiskstofninn?

Ráðgjöfin

Hversu röng sem stofnmælingin kann að vera er aflaráðgjöfin enn furðulegri. Þegar aflareglan var fundin upp var það gert með því að gefa tölvu forsendur og láta hana reikna og reikna. Án þess aðfara nánar út í forsendurnar, þá var ekki gert ráð fyrir vaxtar- og fæðutengdum þáttum, svo sem að vöxtur, dánartala og nýliðun væru háðir stofnstærð, eða að þorskurinn hefði áhrif á eigið fæðuframboð - með því að éta, eða reikna með samkeppni frá öðrum tegndum, svo fátt sé nefnt.

Starað er blint á formúlurnar og aldrei horft út fyrir pappírinn sem þær eru skrifaðar á. Líffræðilegir þættir eru hreinlega ekki með.

Hafandi þær upplýsingar í höndunum að þyngd einstaklinga í stofninum eftir aldri sé í sögulegu lámarki, er ráðgjöf reiknimeistaranna á Hafró röng, þó svo að þeir álíti sem svo að stofninn sé lítill: Það er rangt að friða sveltandi fiskstofn. Hann er að horast upp, dánartala er vaxandi, fiskurinn étur undan sér og vonlaust að bíða eftir nýliðun við slíkar aðstæður. Gögn sýna að nýliðun verður ekki við hunguraðstæður. Svangur þorskur spyr ekki um ættartengsl þegar hann étur afkvæmi sín.

Auk þess er ljóst að við sveltiaðstæður er það ekki lausn að bæta við ungviði. Þess vegna er það hjákátlegt að heyra að það þurfi að byggja upp hrygningarstofninn og að í honum þurfi að vera gamlar beljur, sem gefa af sér lífvænlegri afkvæmi, til þess að auka nýliðun.

Skyndilokanir

Þá er kyndugt, eftir að hafa hlustað á röksendirnar um nauðsyn á mörgum stórum fiskum í hrygningarstofni, að beitt skuli lögregluvaldi til þess að friða smáfisk, sem aukin heldur er gamall og sveltur. Skyndilokanir nú í miðjum júní eru komnar yfir 80. Þetta hefur ekki skilað tilætluðum árangri, að fleiri nái að stækka, í áratugi. Þá er þversagnakennt, í aflamarkskerfi, þar sem sagt er að vanti fleiri stóra fiska, að stýra þá sókninni í stóra fiskinn. Það er ekki heil brú í svona vinnubrögðum.

Það er grafalvarlegt mál og ber vott um fádæma lélega fagmennsku að kunna ekki skil á mismuni á ofveiddum og vanveiddum fiskstofni!

Þegar fiskur vex ekki er stofninn hlutfallslega of stór fyrir fæðuframboðið. Þá er eina ráðið að veiða meira. Skv. tillögum Hafró á aflinn að fara í fjórðung af því sem hann var í áratugi þegar stöðugt var farið fram úr ráðgjöf, þ.e.a.s. engin ráðgjöf var í gangi, eina stjórnin var landhelgi og möskvastærðarákvæði, annars veiddu menn eins og þeir vildu, allir sem vildu.

Er nú ekki kominn tími til að tengja í stað þess að klifa stöðugt á að farið hafi verið fram úr ráðgjöfinni svo lengi?

Það sem þarf að gera núna er að ráðherra aftengi Hafró frá ráðgjöfinni, setji aflamarkið í 260 þús tonn og hætti smáfiskafriðun og skyndilokunum. Fróðlegt verður að fylgjast með hvað gerist - þetta getur ekki versnað.