Hafró komin í áróðursstríð og ímyndarfegrun

Í byrjun nóvember 2005 hófst hjá Hafró ferill sem hefur ekki sést hjá þeirri stofnun fyrr. Kynnt var málþing sem að þeirra sögn var til að efla skoðanaskipti og umræðu um þorskrannsóknir undir titlinum " Nýliðun og framleiðslugeta þorskstofnsins". Þrátt fyrir að hafa skrifað talsvert um þessi mál og fært rök fyrir því að fullyrðingar Hafró og annara ICES- stofnana um nauðsyn stórs hrygningarstofns orki a.m.k. tvímælis, frétti ég ekki af þessu þingi fyrr en fáum dögum áður en það var haldið, frá kollega sem hafði samband og kvaðst hissa að sjá mig ekki meðal frummælenda.

Þegar ég sá dagskrá fundarins var auðsætt að Hafró hafði valið jábræður sína á fundinn. Enginn, sem hugsanlega væri á öndverðum meiði var á mælendaskrá. Í þessum "skoðanaskiptum" var aðeins eitt lið á vellinum.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Tæpri viku eftir boðun fundarins birtist áróðurspistill frá einum frummælandanna, sem hélt fram nauðsyn stórs hrygningarstofns eins og sjá má í pistli hér að neðan.

Aðferðin sem hann beitti, við rannsóknir á 364 stofnum, eða tímaröðum eins og hann nefnir það, er þannig gerð að hún leiðir til svokallaðrar 'sjálffylgni ' (auto correlation).

Þetta sést t.d. á spurningu 1: Á mesta nýliðun sér stað þegar hrygningarstofninn er stór? Svarið verður auðvitað já, vegna þess að þegar hrygningarstofninn er stór, sem yfirleitt stendur yfir nokkur ár, þá er það vegna þess að nýliðun hefur verið, og er, mikil á sama tímaskeiði. Þetta leiðir til sjálffylgni þar sem orsök og afleiðingu er blandað saman.

Hið öfuga gerist í spurningu 2: Á minnsta nýliðun sér stað þegar að hrygningarstofninn er lítill? Auðvitað er hrygningarstofninn lítill á tímabilum þegar nýliðun er lítil, sem getur átt sér aðrar rætur en sjálfa stærð hrygningarstofnsins.

Til þess að skoða þetta verður að nota tímaraðir eins og ég geri við Færeyjagögnin og skoða fasamuninn í nýliðun og hrygningarstofni. (sjá: Færeyjagögnin )

Áframhald áróðursstríðsins er rakið hér að neðan, stórtíðindin koma slag í slag en þetta birtist all á fréttavefnum Skip.is:

Ráðgjanefnd Hafró er kynnt til sögunnar, svo og fyrihuguð fundarferð um landið, auðvitað án andmælenda. Kynnt er aukið fjármagn til hafrannsókna þar sem Hafró fær 50- 100 milljónir strax en 25 fari til "hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum og mun faghópur meta þær út frá vísindalegu gildi verkefnanna".

Athyglisvert, engir faghópar meta vísinda gildi Hafró- rannsóknanna!

Næst koma svo frásagnir af funda(her)ferð Hafró þar sem sagt er frá þeim á óeðlilega áróðurslegan hátt, klifað á nauðsyn friðunar til að stækka hrygningarstofninn, sagt frá spurningum þakklátra og ánægðra fundarmanna, en ekki frá því hvort og þá hvernig spurningum þeirra var svarað.

Þetta stingur í stúf við þær frásagnir sem ég hef fengið af þessum fundum en oft mun hafa verið gerð hríð að þeim Hafrannsóknamönnum.

Öllum tilkynningum svo pundað á fjölmiðla eins og hjá fagmönnum í andlitslyftingu og áróðri.

Er Hafró virkilega svo djúpt sokkin að hún þurfi að ráða sér auglýsingastofu til þess að hressa upp á ímyndina? Ljótt er ef satt er.

--------------------------

Málþing um þorskrannsóknir og nýtingu þorskstofnsins

2.11.2005 

Þorskstofninn er mikilvægasti nytjastofn þjóðarinnar. Skoðanaskipti og umræða um þorskrannsóknir og nýtingu stofnsins eru nauðsynleg og því efnir Hafrannsóknastofnunin, á 40 ára afmælisári sínu, til málþings í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið undir yfirskriftinni: Nýliðun og framleiðslugeta þorskstofnsins.

Á þinginu flytja innlendir og erlendir sérfræðingar í þorskrannsóknum erindi um rannsóknir sínar, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum. Málþingið er liður í þeirri eflingu umræðu um fiskifræðileg málefni, sem Hafrannsóknastofnunin hefur beitt sér fyrir undanfarið, m.a. með reglulegum fundarferðum um landið, greinaskrifum og öflugri upplýsingamiðlun.

Málþingið verður haldið á Grand Hótel í Reykjavík þann 7. nóvember og stendur það frá kl. 13.00 til 17.15. Allir eru velkomnir.

----------------------------------------------------------------------

Stór hrygningarstofn er forsenda góðrar nýliðunar

- útdráttur úr erindi Ransom A. Myers sem flutt verður í dag á málþingi í tilefni af 40 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar

7.11.2005 

Í dag verður haldið málþing á vegum sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar í tilefni af 40 ára afmæli stofnunarinnar. Á þinginu flytja innlendir og erlendir sérfræðingar í þorskrannsóknum erindi um rannsóknir sínar, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum. Með fyrirlesara er Ransom A. Myers frá University of Dalhousie í Kanada en meðfylgjandi er útdráttur úr erindi hans sem nefnist ,,Er samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar?"

,,Hversvegna er mikilvægt í tengslum við langtímaafrakstur af fiskveiðum að

viðhalda stórum hrygningarstofni? Leitast er við að skoða mikilvægi þess að viðhalda öflugum hrygningarstofni eigi fiskistofn að geta staðið undir fiskveiðum til langs tíma.

Úrvinnsla var gerð á nánast öllum tiltækum áreiðanlegum langtímagagnaröðum um samband hrygningarstofns og nýliðunar í heiminum (364 tímaraðir) til þess að meta hvort nýliðun væri háð stærð hrygningarstofns. Leitað var svara við þremur eftirfarandi spurningum: (1) á mesta nýliðun sér stað þegar hrygningarstofninn er stór? (2) á minnsta nýliðun sér stað þegar að hrygningarstofninn er lítill? og (3) er meðalnýliðun meiri þegar stærð hrygningarstofns er fyrir ofan meðallag, eða fyrir neðan meðallag? 

Niðurstaðan er sú að þegar stærðarsvið hrygningarstofnsins var nægjanlega vítt var svarið við öllum þremur spurningunum nær alltaf ,,já". Þetta bendir til augljóss mikilvægis þess við stjórnun fiskveiða að viðhalda stórum hrygningarstofni. Þar sem að hámarks "hrygningargeta" er tiltölulega stöðug meðal fisktegunda og stærð hrygningarstofns er greinilega tengd nýliðun er tiltölulega einfalt að gera magnbundnar spár varðandi það veiðiálag sem leiðir til hruns fiskistofna. Það er einnig tiltölulega einfalt að segja fyrir um þann hrygningnarstofn sem þarf að vera til staðar til þess að viðhalda fiskveiðum til frambúðar. 

Að endingu voru skoðaðar umfangsmiklar sögulegar, erfðafræðilegar og þróunarfræðilegar upplýsingar um nytjastofna. Öll þessi gögn sýndu að ofveiði getur útrýmt staðbundnum stofnum, orsakað skaðlegar langtíma breytingar í afrakstri, og einnig minnkað staðbunda fjölbreytni. Það er algengt vandamál tengt fiskveiðum að hrygningarstofnar hafa minnkað svo að dregið hefur úr getu þeirra til nýliðunar. Því er greinilegt að fiskveiðistjórnun hefur fram til þessa ekki tekið tillit til hrygningarstofns og sjálfbærra veiða, sem aftur hefur haft í för með sér hrun stofna með tilheyrandi afleiðingum fyrir vistkerfið.

Niðurstaðan er því sú að öll gögn benda til mikilvægis þess að viðhalda stórum hrygningarstofni þorsks við Ísland."

Málþingið verður haldið á Grand Hótel í Reykjavík þann 7. nóvember og stendur það frá

kl. 13.00 til 17.15. Allir eru velkomnir.

Hægt er að sjá útdrætti úr fleiri framsöguerindum á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

----------------------------------------------------------------------

Ráðgjafarnefnd Hafró tekur til starfa

9.11.2005 

Nýskipuð ráðgjafarnefnd Hafrannsóknastofnunarinnar kom í gær saman til síns fyrsta fundar. Meginverkefni nefndarinnar er að fjalla um helstu þætti í starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar og áherslur í rannsóknum. Nefndin er stjórn stofnunarinnar og forstjóra til ráðuneytis auk þess að vera tengiliður stofnunarinnar við sjávarútveginn og innlenda og erlenda fagaðila. 

Á fundinum í dag var Michael Sinclair kosinn fyrsti formaður nefndarinnar en hana skipa: Árni Bjarnason, skipsstjóri; Åsmund Bjordal, forstöðumaður veiðarfærarannsókna við Hafrannsóknastofnunina í Bergen; Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og framkvæmdastjóri; Elínbjörg Magnúsdóttir, fiskvinnslumaður; Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur; Michael Sinclair, fiskifæðingur og forstjóri Bedford Hafrannsóknastofnunarinnar í Dartmouth í Kanada, Sigrún H. Jónasdóttir, sjávarlíffræðingur við dönsku Hafrannsóknastofnunina og Ólafur J. Daðason, skipstjóri.

Á fyrsta fundinum kynntu starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar nefndarmönnum helstu þætti í starfseminni. Að sögn Jóhanns Sigurjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, eru miklar væntingar gerðar til starfa nefndarinnar og vænta starfsmenn þess að ráðgjafarnefndin verði til styrkingar faglegri starfsemi stofnunarinnar. 

----------------------------------------------------------------------

Kynningar- og umræðufundir um haf- og fiskirannsóknir á 40. afmælisári Hafró

10.11.2005

Á næstu vikum boðar Hafrannsóknastofnunin til opinna kynningar- og umræðufunda um haf- og fiskirannsóknir og ráðgjöf stofnunarinnar í bæjar- og sveitarfélögum við sjávarsíðuna. Tilgangurinn er að styrkja tengsl stofnunarinnar við þá sem vinna við sjávarútveg, útskýra eðli rannsóknanna, niðurstöður og ráðgjöf stofnunarinnar. Þá telur stofnunin ekki síður nauðsynlegt að vera í lifandi sambandi við þá sem sækja sjóinn svo virkja megi þekkingu þeirra í rannsóknunum.

Dagsetningar og fundarstaðir: .......

---------------------------------------------------------------------

Aukið fjármagn til hafrannsókna

11.11.2005 

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Í fjárlögum næsta árs er lagt til að framlög til  Hafrannsóknarstofnunar aukin um 50 milljónir króna og síðan um 100 milljónir króna frá og með fjárlögum ársins 2007.

Jafnframt er úthlutunarreglum Verkefnasjóðs sjávarútvegsins breytt þannig að á næsta ári fari að minnsta kosti 25 milljónir króna, af því fé sem sjóðurinn hefur til úthlutunar, til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum og mun faghópur meta þær út frá vísindalegu gildi verkefnanna.

Með þessu næst tvennt;  hafrannsóknir á vegum Hafrannsóknarstofnunarinnar verða auknar í kjölfar hærri fjárveitinga og þeir sem starfa utan stofnunarinnar og hafa haft takmarkaðan aðgang að styrkjum gefst færi á að sækja um til Verkefnasjóðs til að stunda hafrannsóknir. 

Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir ánægjulegt að verið sé að styrkja fjárramma stofnunarinnar í framtíðinni. Hafrannsóknarstofnunin hyggist á næsta ári efla rannsóknir á vistkerfi Íslandshafs, frá Grænlandssundi norður og austur um land og leggja sérstaka áherslu á loðnurannsóknir. Þetta séu brýnar rannsóknir m.a. í ljósi breytinga á umhverfi sjávar undanfarin ár.

Þessari ráðstöfun fjár til hafrannsókna til frambúðar fylgir að Verkefnasjóður sjávarútvegsins leggur  660 milljónir króna, sem upprunnar voru í Þróunarsjóði, í ríkissjóð. Unnið er að uppgjöri sjóðsins en eignir hans í lok starfstíma hans byggðust á greiðslu sjávarútvegsfyrirtækja til sjóðsins.

----------------------------------------------------------------------

Fundaferð Hafrannsóknastofnunar gengur vel

16.11.2005

Ánægja er með það hjá Hafrannsóknastofnun hvernig til hefur tekist með kynningar- og umræðufundi stofnunarinnar sem haldnir hafa verið víðs vegar um landið undanfarna daga. Búið er að halda fimm fundi en boðað er til fundanna í tilefni af 40 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar. 

Fyrir helgi voru haldnir tveir fyrstu kynningar- og umræðufundir Hafrannsóknastofnunarinnar í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn og voru þeir vel sóttir að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar. 

Þrír fundir voru haldnir á norðanlands á sunnudag og mánudag, á Sauðárkróki, Dalvík og Húsavík og voru þeir allir vel sóttir og augljóst að mikill áhugi er á viðfangsefnum Hafrannsóknastofnunarinnar og álitamálum varðandi nýtingu fiskistofnanna og lífríkið á Íslandsmiðum.

Á þessum fundum voru haldin erindi um haf- og fiskifræðileg málefni. Fram kom hjá Jóhanni Sigurjónssyni, forstjóra að tekist hefði að fjármagna umfangsmikið rannsóknaverkefni á vistfræði Íslandshafs, þ.e. frá Grænlandssundi og austur fyrir land, þar sem sérstök áhersla verði á umhverfisaðstæður á loðnuslóð. Það væri brýnt í ljósi mikilla umhverfisbreytinga allt í kringum landið, einkum á norðurmiðum. 

Almennt sagði Jóhann að meginverkefnið væri að ná betri nýtingu úr helstu nytjastofnum sjávar, einkum þorski, en jafnframt yrði það forgangsmál á næstu árum að þróa vistkerfisnálgun í fiskveiðum, sem tryggði að ríkt tillit væri tekið til áhrifa veiða á einstaka fiskistofna og áhrif veiða á aðra stofna og umhverfi sjávar.

Einar Hjörleifsson, fiskifræðingur útskýrði hvernig vísitölur fengnar úr stofnmatsleiðöngrum gæfu til kynna mjög mismunandi árgangastyrk, að sama mynstur kemur fram þegar samsetning afla er skoðuð og að mat á stærð fiskistofna byggir að mestu leiti á slíkum einföldum mælingum. Mat á ástandi fiskistofna, eins og ýsu og þorski, byggist því ekki á flóknum reiknikúnstum eins og stundum er haldið fram, heldur beinum mælingum. 

Haraldur Einarsson, fiskifræðingur sagði frá nýjungum í rannsóknum á veiðarfærum, m.a. kjörhæfni, þ.e. valfærni veiðarfæra, einkum botnvörpu. Einnig greindi hann frá tilraunum með fiskiskiljur í flotvörpu, sem skilja nánast allan meðafla frá við kolmunnaveiðar. Að lokum kynnti Haraldur nýjan tækjabúnað við rannsóknirnar.

Að loknum erindum voru fjörugar en uppbyggilegar umræður.

 

Á Sauðárkróki voru m.a. umræður um fræðilegan grundvöll aflareglu í þorski og skynsemi þess að lækka veiðihlutfallið, ástæður þess að ýsan væri í afar miklum vexti en þorskur stæði í stað, hvort fiskurinn væri ætislaus við landið, samband þorsks og loðnu, réttmæti dragnótaveiða innfjarða, staða sandsílis við landið og loðnuleysi innfjarða norðanlands, stofneiningar þorsks við Ísland og mikilvægi þess að ganga ekki á fjölbreytileika, skyldleiki síldar fyrir vestan og austan land, og um sjálfbærni og vistkerfisnálgun í stjórnun veiða. Að lokum var rædd menntun í fiskifræði og nauðsyn þess að verja meiru fé til haf- og fiskirannsókna. 

Á Dalvík komu upp ýmis sömu efni en einnig voru ræddar seiðarannsóknir og mikil afföll í árgöngum sem bundnar voru væntingar við, mikil fiskgengd fyrir Norðurlandi á þessu ári, alvarlegt ástand rækjustofna, óvissan um þróun loðnustofns við breyttar umhverfisaðstæður, hugsanleg áhrif flotvörpuveiða á hegðun og ástand loðnustofnsins, óvissu um ástand karfastofna og spurt var hvort fiskverndin væri á réttri braut. 

Umræðan var í ýmsu á svipuðum nótum á Húsavík. Auk þess snérist hún um þátt hvala í vistkerfi íslenska hafsvæðisins og um nauðsyn veiða til að stemma stigu við aukningu í hvalastofnum, um framboð af æti fyrir þorsk, holdafar og lifrarþyngd fyrr og nú, vanhöld í æðarfugli vegna skorts á hrygningarloðnu innfjarða í Skjálfanda, bágt ástand lúðu við Ísland og hvort raunhæft sé að stjórna þorskveiðum á grundvelli svæðaskiptingar.

----------------------------------------------------------------------

Hafró fundar með Austfirðingum

17.11.2005

Í gær og í fyrradag hélt hringferð Hafrannsóknastofnunarinnar áfram með vel heppnuðum fundum á Vopnafirði og Norðfirði að því er fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar. Á fundunum héldu Jóhann Sigurjónsson, forstjóri, Ásta Guðmundsdóttir og Einar Hjörleifsson erindi og ræddu við fundargesti.

Jóhann Sigurjónsson minntist 40 ára afmælis Hafrannsóknastofnunarinnar á þessu ári og sagði meginviðfangsefnið á næstu árum að ná sátt um skynsamlega nýtingu þorskstofnsins. Einnig væru framundan brýn verkefni á sviði veiðarfærarannsókna, kortlagningar hafsbotnsins og vistfræði Norðurmiða nú á miklu breytingaskeiði umhverfisskilyrða við landið. Hann fagnaði auknu framlagi stjórnvalda til þessara rannsókna, en taldi jafnframt að tryggja þyrfti betur rekstur rannsóknaskipa stofnunarinnar.

Í erindi Einars Hjörleifssonar, fiskifræðings, kom fram mikilvægi kerfisbundinna mælinga, að munur í afla ýsuárganga hefur verið tífaldur en breytileiki í vexti innan við tvöfaldur á síðustu 20 árum. Jafnframt lýsti Einar því samræmi sem kæmi fram í stofnmælingum annars vegar og afla hins vegar og hvernig nota mætti sögulegar mælingar til að spá fyrir um aflabrögð framtíðar.

Ásta Guðmundsdóttir, sérfræðingur, rakti í stuttu máli ástand uppsjávarfiskistofnanna. Það telst gott hjá síldarstofnunum tveimur, þ.e. íslensku sumargotsíldinni og norsk-íslensku vorgotssíldinni og eru horfur því bjartar framundan. Kolmunnastofninn er einnig talinn vera í góðu ástandi en hins vegar er áhyggjuefni hversu mikið er veitt af ungum kolmunna. Þá ræddi Ásta stöðu loðnustofnsins, en ekkert er vitað um stærð veiðistofnsins fyrir þessa vertíð. Það er einnig mikið áhyggjuefni að ekki liggur fyrir hvar ungloðnan heldur sig um þessar mundir né hversu sterkir árgangarnir eru sem standa munu undir veiðinni að að ári liðnu.

Á Vopnafirði urðu líflegar umræður sem mikið snerust um fæðuástand nytjastofna, einkum þorsks, hvort loðnuveiðarnar væru skynsamlegar í þessu tilliti, hver staða sandsílis væri og ástand fuglastofna, svo sem kríu. Þá voru óvissa og horfur í loðnuveiðum ræddar og vöngum velt yfir því hvar kolmunnann væri nú að finna. Að lokum veltu fundarmenn fyrir sér sambandi hrygningarstofns og nýliðunar þar sem sérfræðingar lögðu áherslu á að tryggja bæri sterkan hrygningarstofn til að auka líkur á betri nýliðun.

Umræðurnar á Norðfirði voru um svipuð mál, en einnig komu veiðarfærarannsóknir til tals og árangur í stjórn þorskveiða. Veiðarnar hefðu verið verulega umfram ráðleggingar stofnunarinnar á liðnum áratugum. Hægt væri að auka þorskafla með því að draga saman seglin um stundarsakir, lækka veiðihlutfallið en eins væri sérstök þörf nú að tryggja hrygningu stærri þorsks sem talinn væri mikilvægastur í nýliðun stofnsins.

Að síðustu var mikil umræða um áhrif stækkandi hvalastofna, einkum hnúfubaka og áhrif hvals á gönguhegðun loðnu, sem nú væri rannsóknarefni líkt og óþekkt áhrif flotvörpu á loðnu.

Næstu fundir hringferðarinnar verða í kvöld á Ísafirði, á morgun föstudag á Tálknafirði, á mánudag í Grindavík og Grundarfirði á þriðjudag.

----------------------------------------------------------------------

Fundir Hafró í Grindavík og Grundarfirði

24.11.2005

Í vikunni efndi Hafrannsóknastofnunin til kynningar- og umræðufunda um haf- og fiskirannsóknir í Festi, Grindavík og Samkomuhúsinu, Grundarfirði. Á fundunum fluttu forstjóri og sérfræðingar stofnunarinnar erindi, ræddu við fundarmenn og svöruðu fyrirspurnum að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Grindavík

Á fundinum í Grindavík bauð Jóhann Sigurjónsson, forstjóri, gesti velkomna til þessa fundar þegar líður á seinni hluta 40 ára afmælisferðar stofnunarinnar um landið. Sagði hann í inngangi sínum að efinn væri afl vísindanna, því hann hjálpaði okkur að setja fram spurningar og tilgátur sem knýja fram þekkingarleitina. Gagnrýnin og málefnaleg skoðanaskipti væru nauðsynlegur hvati fyrir þá sem rannsóknir stunda. Að ávarpi Jóhanns loknu voru flutt tvö erindi:

Björn Ævarr Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafarsviðs, ræddi um stærð og stærðarsamsetningu hrygningarstofns þorsks, nýliðun á síðustu áratugum og mikilvægi stórþorsks í hrygningu. Björn Ævarr lagði áherslu á að gögn sýndu að án vafa væru vaxandi líkur á betri nýliðun ef tækist að stilla veiðum í hóf og þar með stækka hrygningarstofn.

Sigmar A. Steingrímsson, sjávarlíffræðingur flutti erindi um kórallasvæði við Ísland. Gerði hann grein fyrir útbreiðslu kóralla samkvæmt niðurstöðum fyrirspurna til sjómanna um þekkingu þeirra á slíkum svæðum. Ásamt nákvæmum dýptarkortum (fjölgeislakort) hafa þessar upplýsingar verið notaðar sem grundvöllur nýrra rannsókna stofnunarinnar á lífríki og ástandi kórallasvæða, þar sem notaður er fjarstýrður kafbátur. Sigmar greindi frá fyrstu niðurstöðum þeirra rannsókna, en á grundvelli þeirra hefur stofnunin lagt til friðun þriggja kórallasvæða við landið.

Að erindum loknum spunnust margvíslegar umræður og var áhugi fundarmanna á fundarefninu mikill, þó áliðið væri kvölds. Eins og á fyrri fundum voru loðnuveiðar til umræðu þar sem sú skoðun var sett fram að óráðlegt væri að veiða loðnuna frá hrygningarþorski suðvestan lands því næringarástand hefði áhrif á nýliðun í stofninn. Þorskveiðar og ástand stofnsins var ofarlega í hugum fundarmanna, smáfiskavernd, styrking hrygningarstofns og horfur á Grænlandsgöngum við breytt umhverfisskilyrði . Hvernig má nýta sér nýlegar niðurstöður erfðarannsókna um undirstofna til að ná betri árangri í nýtingu þorskstofnsins. Þá var spurt hvort aukinn línuafli norðanlands og austan væri ekki til marks um bærilega stöðu stofnsins og að nægileg vernd fælist í að breyta veiðihlutfalli úr 30% sem verið hefði í 25% sem upphaflega hefði verið stefnt að, en fiskifræðingar hefa nú mælt með lækkuðu veiðihlutfalli. Að lokum voru uppi raddir um meinta skaðsemi dragnótar og efasemdir um réttmæti botnvörpuveiða á grunnslóð.

Fundarstjóri á þessum fjölsótta fundi var Ólafur Örn Ólafsson.

Grundarfjörður

Á Grundarfirði flutti Jóhann Sigurjónsson, forstjóri, erindi um sögu hafrannsókna við Ísland og helstu áherslur á rannsóknum á næstu árum en með í för var Hlynur Pétursson, útibússtjóri í Ólafsvík, Björn Ævarr Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafarsviðs, og Valur Bogason, útibússtjóri í Vestmannaeyjum. Í máli Jóhanns kom fram að stofnunin mun leggja áherslu á vistfræðilega nálgun við stjórnun fiskveiða sem krefjast aukinnar þekkingar á vistfræði hafsins og áhrif veiða á umhverfið. Jóhann lagði áherslu á mikilvægi þess að hraða kortlagningu hafsbotnsins og sýndi fundarmönnum áhugaverðar botnmyndir sem unnar hafa verið með hátæknibúnaði um borð í Árna Friðrikssyni.

Björn Ævarr, ræddi líkt og í Grindavík um stærð og stærðarsamsetningu hrygningarstofns þorsks, nýliðun, mikilvægi stórþorsks í hrygningu og aðgerðir til úrbóta.

Valur Bogason, flutti erindi um lifnaðarhætti sandsílis og kynnti niðurstöður rannsókna á sandsíli hér við land. Margt fróðlegt kom fram í erindi Vals en ljóst er þó að frekari rannsókna er þörf á þessum mikilvæga hlekki í vistkerfi Íslandsmiða og ræddi Valur áætlanir þar um.

Að lokinni framsögu beindu fundarmenn fjölda fyrirspurna til framsögumanna og spunnust fjörugar umræður fram eftir kvöldi. Menn höfðu almennt áhyggjur af minna æti fyrir þorsk og áhrifum loðnuveiða og varð töluverð umræða um ástand loðnustofnsins. Hver er ástæða slakrar nýliðunar í þorski undanfarin ár - hafa loðnugöngur á hrygningarsvæðin suðvestanlands marktæk áhrif á nýliðunina á svæðinu sama ár, var spurt. Og hvar hrygndi loðnugangan sem hvarf fyrir suðaustan land? Hefur flotvarpan áhrif á atferli og gögnur loðnu, var spurt. Þá var rædd gagnsemi friðunar hrygningarsvæða steinbíts, horfur í hörpudiskstofni, mikil aukning skötusels vestan lands og hugsanlegar afleiðingar vaxandi hvalastofna.

Fundurinn var vel sóttur af heimamönnum og greinilegt að sjómenn kunna að meta þetta framtak Hafrannsóknastofnunarinnar. Fundarstjóri var Björg Ágústsdóttir.

Næsti fundur verður haldinn á Höfn í Hornafirði þann 30. nóvember kl. 20.

----------------------------------------------------------------------

Fundaferð Hafrannsóknastofnunar lauk á Hornafirði

2.12.2005

Nú í vikunni var haldinn 12. og síðasti kynningar- og umræðufundur Hafrannsóknastofnunarinnar á Höfn í Hornafirði, í hringferð um landið sem hófst með opnu málþingi í Reykjavík um nýliðun og afrakstursgetu þorskstofnsins. Á fundinum fluttu erindi þau Jóhann Sigurjónsson, forstjóri, Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur og Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur. Fundarstjóri var Albert Eymundsson.

Vakin er athygli á þessu í tilkynningu til fjölmiðla með vísun til heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Þar segir að í inngangserindi sínu hafi forstjórinn minnst frumkvöðlanna í íslenskum fiskirannsóknum, Bjarna Sæmundssonar er hóf störf árið 1894 og Árna Friðrikssonar sem réðist til Fiskifélags Íslands í fullt starf ráðunautar við gagnaöflun og fiskirannsóknir árið 1931. Forveri Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans, var stofnuð 1937, en henni var með lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna breytt í Hafrannsóknastofnunina árið 1965.

Þorsteinn fjallaði um ástand uppsjávarfiskistofna, þ.e. síld, loðnu og kolmunna. Kom fram í erindi hans að ástand síldarstofna sem við stundum veiðar úr er nú álitið mjög gott. Stofn íslenskrar sumargotssíldar hefur í meginatriðum verið vaxandi allt frá því að veiðar hófust á ný eftir hrun stofnsins á sjöunda áratugnum og má það m.a. þakka hversu skynsamlegri nýtingarstefnu hefur verið fylgt. Ástand norsk-íslenska síldarstofnsins er einnig gott nú, en í máli Þorsteins kom fram að göngumynstur stofnsins og vetursetusvæði hafi breyst mikið á undanförnum áratugum, og er enn að breytast. Fram kom einnig að í sumar hafi síldin gengið lengra inn í íslenska lögsögu en verið hefur á síðustu árum, en þó hafi hún stoppað stutt við fyrir Austurlandi. Ástand kolmunnastofnsins er jafnframt talið gott um þessar mundir, þrátt fyrir mikla veiði undanfarinna ára. Óvenju góð nýliðun í stofninn frá árinu 1998 hefur haldið þessari veiði uppi. Að lokum fjallaði Þorsteinn um breytingar sem virðast hafa orðið á göngumynstri loðnunnar og um ástand og horfur í loðnuveiðum á komandi vertíð. Eins og kunnugt er hefur ekki tekist að meta stærð hrygningarstofns loðnunnar í haust og því hefur ekki verið hægt að ráðleggja um hámarksafla vertíðarinnar. Ítrekað hefur verið leitað að loðnu á þessu ári, en leitin hefur ekki skilað árangri. Fór Þorsteinn yfir þá leit sem nú stendur yfir með þátttöku hafrannsóknaskips og þriggja loðnuskipa. Búast má við niðurstöðu úr þeirri leit á næstu dögum.

Guðrún sagði frá kortlagningu hafsbotnsins með fjölgeisladýptarmælingum og hvernig þær mælingar nýtast við aðrar rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar. Þannig sýndi hún meðal annars að nákvæm dýptarkort eru nauðsynlegur grunnur fyrir kortlagningu búsvæða kóralla. Hún sýndi myndir af kórallasvæðum á utanverðu landgrunninu úti fyrir Suðausturlandi og hvar fundist hafa mismundandi vel varðveitt kórallasvæði. Guðrún taldi brýnt að fá meiri skipatíma til fjögleisladýptarmælinga þar sem þetta verk væri í raun rétt að hefjast. Ef vel ætti að vera þyrfti árlegur mælingatími að vera að minnsta kosti einn mánuður og helst meira.

Eins og fyrr í hringferðinni voru líflegar umræður í seinni hluta fundar. Langmest var rætt um það hvort rétt væri staðið að nýtingu uppsjávarfiskistofna, einkum loðnustofnsins, en í ljósi minna ætis fyrir þorsk og aðra nytjastofna var spurt hvort ekki bæri að draga úr loðnuveiðum. Nú er unnið að sérstakri rannsókn sem ætlað er að leggja til grundvallar við framtíðarstefnumótun varðandi nýtingu loðnustofnsins. Eins eru að hefjast athuganir á sandsílisstofninum til þess að unnt verði að glöggva sig betur á breytingum á stofnstærð sandsílis sem undanfarið hefur orðið vart. Þá var mörgum fundargestum tíðrætt um hugsanlega skaðsemi flotvörpuveiða, en upplýst var að ítarlegar rannsóknir á áhrifum þeirra veiða stæðu yfir þennan veturinn, en Hafrannsóknastofnunin teldi mikilvægt að fara með gát í flotvörpuveiðum, m.a. með svæðatakmörkunum. Að lokum var rætt um svæðisbundna stjórnun veiða og hvort rannsóknir sem bendi til aðskildra stofneininga þorsks kalli ekki á nýja nálgun í veiðistjórnun. Fram kom að þessar rannsóknir eru enn stutt á veg komnar, en þær benda til þess að í meðalári gefi hrygningarsvæðin suðvestan lands langmest af nýliðun í stofninn meðan allt í kringum landið væru aðskildar, minni einingar sem gætu þó skipt sköpum sum árin. Þess vegna bæri að vernda þennan fjölbreytileika með hóflegu veiðiálagi. Þá kom fram að Hafrannsóknastofnunin hefði um árabil lagt til svæðisbundna stjórnun humarveiða, enda um aðskildar einingar að ræða, ástand svæðanna breytilegt frá ári til árs og þekkingarforsendur fyrir svæðaskiptingu til staðar.

Að sögn Jóhanns þótti honum afar ánægjulegt á 40 ára afmæli stofnunarinnar að finna fyrir svo miklum áhuga á rannsóknastarfinu og almennu trausti í garð Hafrannsóknastofnunarinnar, sem gegnir grundvallarhlutverki í samfélaginu. Það táknaði þó alls ekki að lognmolla ætti að vera um rannsóknirnar og niðurstöður þeirra, ávallt væru uppi mismunandi viðhorf og hugmyndir sem nauðsynlegt væri að ræða, slíkt væri ein af forsendum árangurs í rannsóknastarfi. –Þessi síðasti fundur okkar á Höfn fannst mér sýna afar vel hversu vel er að takast að styrkja gagnrýna en málefnalega umræðu um fiskifræðileg málefni miðað við það sem áður var. Það er auðvitað til þess fallið að efla rannsóknirnar og atvinnugreinina á komandi árum", sagði Jóhann.

----------------

Lokafréttin var svo í Fréttablaðinu 5. desember: Hafrannsóknastofnunin hefur nú lokið 12 funda hringferð sinni um landið og var síðasti fundurinn á Hornafirði í vikunni. ....

.... Hafrannsóknastofnuni fær mikið lof fyrir fundaröðina frá þeim fjölmörgu útgerðar- og sjómönnum víða um land sem Fréttablaðið hefur talað við.

Hvað skyldu þeir hafa talað við marga?