Sandsílið sjófuglinn og fiskurinn

Mikið hefur verið fjallað í fréttum undanfarið um lélega afkomu kríu og sjófugla hér við land og annars staðar. Varp hafi misfarist og er fæðuskorti kennt um. Ekki sé lengur að finna sandsíli, sem sé aðalfæða þessara fugla.

Ekki er nóg með að varp hafi misfarist heldur eru lundapysjur óvenju rýrar og vanburða og fullorðnir fuglar horaðir. Svipaðar fréttir hafa borist frá Noregi, sjófuglar á Vesturströndinni drepast úr hor, og ástandið virðist hið sama í löndunum í kring um Norðursjó. Sandsílaveiðar hafa verið bannaðar við Norðursjó en þar hefur verið lægð í sandsílastofninum óvenju lengi, eða ein 3 ár. Veiðunum hefur verið kennt um, eins og alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Norskur sérfræðingur sem rætt var við kenndi um ofveiði á sandsíli og kolmunna. Athyglisvert, því fuglar lifa ekki á kolmunna. Hér heima leggja menn til að loðnuveiðar verði bannaðar, en ekki hjálpar það sandsílinu.

Í viðtali við Morgunblaðið 25. september sagði sérfræðingur á Hafró "að það hefði enginn skoðað þetta ástand og á meðan væri aðeins um getgátur að ræða."

Ekki mikils að vænta af þeim bæ.

Íslenskir fiskimenn hafa meiri skilning á þessu máli en Hafsteinn Guðmundsson í Flatey sagði árið 2004 í viðtali við Brimfaxa, tímarit Landssambands smábátaeigenda, um fiskinn í Breiðafirði :

,,Hér áður fyrr þóttu mikil höpp þegar fiskigöngur komu inn í fjörðinn. Nú má segja að það sé næst því versta sem getur komið fyrir. Hér er fjörðurinn fullur upp að öllum nesjum. ... það er nánast það versta sem komið getur fyrir því þorskurinn er búinn að klára allt æti. Sandsíli hefur ekki komið frá botninum upp í yfirborðið siðastliðin sex ár, þar sem það myndaði torfur sem fuglinn sótti í."

Ástand fiskstofna

Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Ísland er sú slakasta sem mælst hefur, en það er órækt merki um hungur og fæðuskort. Talið er að sjaldan hafi verið meiri ýsa við landið og útbreiðslan víðari en þekkst hefur. Algengt er að Þó þorskur á ákveðnu svæði sé horaður þá getur ýsa á sama svæði verið í ágætum holdum. Ástæðan er sú að þegar þorskur og ýsa hafa í sameiningu klárað fæðuna ofan við botninn þá getur ýsan sótt fæðu, skeljar og sandsíli, t.d., niður í botninn. Þetta sést m.a. á því að oftast er magainnihald ýsu svart af drullu.

Færeyjar

Við Færeyjar sveiflast þorskveiðar mjög mikið og hratt, væntanlega vegna samsvarandi sveiflna í stofnstærð þorsks. Sjófuglar sveiflast í sama takti og þorskaflinn, þegar aflinn er lítill er afkoma fuglanna slæm og öfugt.

Sveiflur í stofnstærð þorsks má skýra með því að þorskurinn sé leikstjórnandinn, þegar honum fjölgar gengur hann nærri fæðu sinni, m.a. sandsíli, fugli fækkar og þorskurinn sjálfur fer að horast. Hann fer að éta bræður sína, eða deyr úr hungri. Stofninn minnkar hratt og sandsílið fær frið. Fuglinn fer aftur að fá æti og varp og viðkoma eykst. Samtímis verður til meira æti handa þorski, nýliðun eykst og honum fer aftur að fjölga og atburðarrásin endurtekur sig. þetta eru ekki flókin fræði ef menn á annað borð vilja skilja þau.

Norðursjór

Ég fór í rannsóknaleiðangur á snurvoðarbáti í Norðursjó vorið 2003. Þá var í Norðursjó krökkt af ýsu af metárganginum frá 1999 og þó hún væri 4 ára gömul var hún aðeins um 30 cm að stærð, horuð og kynþroska. Jafn stór þorskur var horaður, afétinn af ýsunni. Þá var sandsíli mjög farið að minnka og sílaveiðum kennt um. Þessi ýsa úr 99- árganginum er enn ríkjandi í Norðursjó, orðin 38 cm að meðaltali, aðrir árgangar ýsu hafa ekki fengið að komast á legg, þorskurinn lélegur og sandsílið ku horfið. Enn er sandsílaveiðum kennt um.

Miklar takmarkanir eru á ýsuveiðum, vegna meintrar ofveiði og breski flotinn er nánast orðinn ónýtur, skipum sem stunda veiðar á botnfiski hefur fækkað um 70% á 4 árum. Skipin voru rifin í Danmörku og er það reyndar eina 'iðngreinin' tengd fiskveiðum, sem blómstrar þar í landi. Engum dettur í hug að tengja sandsílaskortinn við át ýsunnar, þótt ýsan sé sérfræðingur í sandsílaáti, étur hrognin og tekur sílið meðan það er niðri í sandinum fyrstu vikurnar eftir klak.

Þó horfellir hafi orðið hjá svartfugli fyrir norðan land snemma árs 2002 (www.fiski.com/svartfugl) hefur Hafró enn ekki hafið rannsóknir sem skýrt gætu málið, t.d. á fæðutengslum fugla og fiska.

Eðlilegasta lausnin á þessum sandsílaskorti og fugladauða er að mínu mati sú að stórauka þorsk og ýsuveiðar, nokkuð sem myndi gefa af sér miklar tekjur.

Ólíklegt er að Hafró fallist á slíka lausn, enda punga þeir út 70 milljónum króna í matvælaaðstoð - til að kaupa loðnu handa hungruðum þorski í Arnarfirði.

(Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er hér átt við að s.l. sumar, 2005, voru settar um 70 milljónir króna í verkefni sem fólst í að gefa þorski í Arnarfirði loðnu til að éta, í þeirri von að hann léti af þeim ósið að éta rækju.)

Til baka