Fiskur á Færeyjamiðum

(grein úr Mogga frá 24. júní 2005)

Fyrir nokkru bárust þær fréttir að Alþjóða hafrannsóknaráðið teldi að þorskstofninn við Færeyjar væri hruninn. Þetta var á sama tíma og hér var mikil umræða og gagnrýni á Hafró fyrir að hafa týnt þorski, en það vantaði 16% upp á að vísitala þorsks væri hin sama og í fyrra, - en þá var lofað uppbyggingu ef farið yrði að ráðum spunameistaranna á Hafró. Svo kom himnasendingin frá Færeyjum, sem leiddi athyglina að öðru: Þorskstofninn við Færeyjar hruninn, - eina ferðina enn!

Haft var viðtal við sérfræðing á færeysku Hafrannsóknastofnunni sem notaði tækifærið til að úthúða mér og kenna mér beinlínis um hrun þorsksins. Hann sagði að mínar kenningar, sem gengju út á að veiða mikið, væru líffræðilega rangar og hefðu leitt til þess að nú væri þorskur kominn í þrot við Færeyjar og þjóðin á leiðinni á hausinn.

Ég er nýkominn frá Færeyjum þar sem ég var kallaður til ráðgjafafundar með félögum útgerðarmanna og sjómanna. Þeir voru mjög miður sín yfir þessum ummælum. Formaður félags útgerðarmanna sagðist hafa spurt viðkomandi fiskifræðing að því hvað honum hafi gengið til að rægja mig í íslensku útvarpi, og hann svaraði því til að ég hefði svo langi gagnrýnt þá að nú hefði verið kominn tími til að hefna sín.

Minnkandi þorskafli við Færeyjar kemur ekki á óvart. Þorskafli við eyjarnar hefur sveiflast reglulega frá 20- 40 þús. tonna í áratugi. Núverandi niðursveifla hófst 2003 í fullu samræmi við fyrri reynslu.

Þegar ég kom til leiks 2001 hafði Alþjóða hafrannsóknaráðið lagt til mikinn sóknarsamdrátt og bann við ýsuveiðum. Fiskidaganefndin, sem samanstendur af sjómönnum, útgerðarmönnum og fiskvinnslu og gerir skv. lögum tillögu um fjölda fiskidaga, lagði til óbreytta sókn, ég var þeim sammála og Lögþingið samþykkti svo óbreytta sókn.

Þetta endurtók sig árið eftir, Alþjóða hafrannsóknaráðið lagði til mikinn niðurskurð en lögþingið ákvað óbreytta sókn. Þrátt fyrir þess óhlýðni og umframveiði stækkuðu stofnar ýsu, ufsa og þorsks verulega og samanlagður afli og stofnstærð náðu sögulegu hámarki 2002. Þetta sannaði að ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins hafði verið röng. Stofnar eru varla ofveiddir ef þeir eru í vexti, þvert á móti.

Árið 2003 var þorskurinn orðinn magur, ég áleit að stofninn hefði vaxið sér yfir höfuð og væri farinn að minnka vegna hungurs og sjálfáts. Lagði ég til 15% fjölgun sóknardaga, sagði að versta sem hægt væri að gera þegar hungursneyð ríkti væri að draga úr veiðum. Ákveðið var að halda sókninni nær óbreyttri og þorskafli fór minnkandi. Þetta endurtók sig árið eftir, þorskaflinn fór niður í 23 þús. tonn en hann hafði verið 40 þús tonn árið 2002.

Þorskstofninn hefur verið á niðurleið og engan undrar að afli minnki. En að hann sé hruninn er fjarri lagi. Þorskaflinn fyrstu 6 mánuði ársins er um 12 þús tonn og reynsla er fyrir því að eftir lægðina fari afli aftur að vaxa. Færeyskir sjómenn eru því pollrólegir. Ýsuveiðin er eðlileg en ufsaveiðin stefnir í nýtt met.

Þess ber að geta að í nýrri skýrslu frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu segir að fiskframleiðsla við eyjarnar stjórnist af fæðuframboði og benda á að frumframleiðni, vöxtur og framleiðsla þorsks og ýsu, nýliðun þessara tegunda og fjöldi langvíu á varpstöðum, sveiflist í takti. Ekki ofveiða sjómennirnir langvíu, eða hvað?

Hér má sjá myndina úr nýjusti skýrslu ICES þar sem segir að vöxtur og framleiðsla þorsks og ýsu, nýliðun þessara tegunda og fjöldi langvíu á varpstöðum, sveiflist í takti. Hvað eru menn svo að tala um ofveiði á þorski. Er ICES að yfirgefa reikniformúlur fyrir líffræði?

Til baka