Þorskur við Færeyjar

Samband hrygningarstofns og nýliðunar

Jón Kristjánsson, febrúar 2005

Inngangur

Hinar reglulegu sveiflur í þorskafla við Færeyjar hafa vakið athygli og hafa margir reynt að skýra þessar sveiflur með mismunandi árangri. Sjálfur setti ég fram kenningu á ráðstefnu í Bergen 1998 um að það væri þorskurinn sjálfur sem stjórnaði sveiflunum með áti sínu (http://www.fiski.com/skrar/sveiflur.html) en hef fengið dauf viðbrögð svo ekki sé meira sagt. Mætti þó ætla að þeir sem væru á öndverðum meiði létu í sér heyra og settu fram gagnrök eða nýjar hugmyndir. Svo er þó ekki, að því undanskildu að færeyskir fiskifræðingar settu fram þá skoðun vorið 2004 að viðgangur þorskstofnsins réðist af fæðu. Þeir sýndu mælingar þar sem frumframleiðni og vöxtur þorsks féllu vel saman. Ekki skýrðu þeir þó tengslin frekar, en það er langur vegur á milli frumframleiðni og þorsks og mörg þrep í fæðukeðjunni:

Plöntusvif, dýrasvif, síli, þorskur er stysta leiðin en hún getur orðið all miklu lengri. Færeyingarnir mældu reyndar ekki framleiðnina beint, þeir mældu afgangs næringarefni í hafinu og reiknuðu þörungaframleiðsluna óbeint en það er enn fjær fiskinum ef svo má segja.

Við fiskveiðiráðgjöf í Færeyjum, fyrst 2001, notaði ég tilgátu mína frá 1998 þar sem ég sýndi fram á að neikvætt samband væri milli hrygningarstofns og nýliðunar ekki aðeins hjá þorski, heldur líka hjá ýsu og ufsa (http://www.fiski.com/skrar/rapp1.pdf).

Stór hrygningarstofn gæfi lítið af sér en lítill hrygningarstofn leiddi til mikillar viðkomu. Ég sýndi fram á að svipað gilti um ýsu og ufsa. Veiðiráðgjöfin árið 2001 frá færeysku Hafró og ICES, Alþjóða hafrannsóknastofnuninni, var að hætta skyldi ýsuveiðum, annars væri hætta á að hrygningarstofninn yrði of lítill til að gefa almennilega af sér (tilv). Ég benti á hið gagnstæða, stjórnvöld féllust á þessi rök og héldu uppi óbreyttri sókn og hafa gert síðan, utan 1-1,5% niðurskurð sl. tvö ár.

Lykillinn að því að skoða þetta samband er að skoða gögnin í tímaröð en ekki nota línulega regressjón (aðhvarfsgreiningu) eins og alltaf er gert. Þá kemur fram viss hrynjandi og til þess að draga hann betur fram og losna við "truflanir" (e. noise), notaði ég hlaupandi meðaltöl.

Ég reyndi síðar sömu aðferð á þorsk í Írska hafinu, í Norðursjó og vestur af Skotlandi. Yfirleitt kom þetta neikvæða samband alls staðar fram. Ég kynnti þetta á fundum í Írlandi, Skotlandi og í London. Í London spurði ég enska fiskifræðinga hvað þeim fyndist um þetta og hvort ég væri e.t.v. að gera eitthvað rangt sem ekki stæðist en það varð fátt um svör, þeir sögðust reyndar myndu gera athugasemdir skriflega, - hvað þeir og gerðu.

Um þetta má lesa á (www.fiski.com/english/eindex/joehor1.html), en kjarninn í gagnrýninni var sá að með því að nota hlaupandi meðaltöl sköpuðust falskar sveiflur sem ógiltu svona pælingar. Þeir sögðu reyndar að ef tekin væru hlaupandi meðaltöl af tilviljanakenndum tölum kæmu fram sveiflur, sem gæfu nýliðun með þessum sveiflum og ef það væri sett inn í stofnlíkan sem framreiknaði þróun hrygningarstofnsins þá kæmi fram svona öfugt samband.

Þá má spyrja, er nýliðun háð tilviljunum? Ef svo er, því að hafa áhyggjur af hrygningarstofninum?

--------- 000 -----------

Aðferðafræði og niðurstöður

Inngangur

Hefðbundin framsetning af sambandi hrygningarstofns og nýliðunar hjá þorski við Færeyjar. Hér er gert ráð fyrir línulegu sambandi milli absolútt stærða. Svipaðar myndir má sjá í skýrslum ICES og hafrannsóknastofnana víða um heim.
Hæpið er að gera ráð fyrir að þessar stærðir séu absolútt ef umhverfið er breytilegt. Ástand átustofna (loðnu, t.d.) er mismunandi og samkeppni frá öðrum stofnum (ýsu, ufsa, t.d.) er mismunandi. Það fer eftir ætisskilyrðum og samkeppni hvort ákveðinn tonnafjöldi sé stór eða lítill stofn /hrygningarstofn.

Nýlega mátti sjá þessa mynd í vinnuskýrslu ICES: Þróun hrygningarstofns (SSB) og nýliðunar (R) í tíma.
Ekki þarf að rýna lengi í þessa mynd til að sjá að yfirleitt eru þessir þættir í mótfasa: Þegar hrygningarstofninn er stór er nýliðun lítil og öfugt. Litlu hrygningarstofnarnir gefa besta nýliðun. Samt hafa ICES og Færeyska Hafró sífellt verið að leggja til aflasamdrátt til þess að stækka hrygningarstofninn. Varúðarreglan segir það sama: Hrygningarstofninn skal vera stór til að tryggja góða nýliðun.

--------- 000 --------

Aðferðir



Frumgögnin sett upp í línurit.



3 ára hlaupandi meðaltöl
Þessi mynd sýnir frumgögnin eftir að búið er að filtera þau með 3- ára hlaupandi meðaltali.


Gröfin sköluð til að sveiflurnar verði ámóta stórar (Ath. mismunandi mælikvarða á línunum).


Þessi mynd sýnir hrygningarstofninn með mismunandi filteringum. 1 er ófilterað, 3 er 3 ára meðaltal og 9 og 11 tilsvarandi meðaltöl. Sjá má að 3 ára meðaltalið rúnnar af og sýnir hátíðni sveiflurnar án þess að búa til nýjar, þ.e. filteringin er óbjöguð. 9 ára meðaltalið sýnir langtíma (lágtíðni) sveifluna, svipað og línan hefði verið dregin fríhendis. 11 ára meðaltalið bjagar, gefur falskar uppsveiflur árin 1964, 1980 og 1991. Á myndinni má sjá hvernig stuttu sveiflurnar (3 ave) sveiflast í kring um lágtíðnisveifluna. Með því að plotta mismuninn milli þeirra kemur fram myndin hér að neðan:


Hér sést hvernig hrygningarstofninn sveiflast í kring um meðaltalið.
Þetta er hin hlutfallslega sveifla í stofninum. Sé þetta borið saman við frummyndina er ekki að sjá að aukasveiflur hafi orðið til við filteringuna. Myndin hefur einungis verið "hreinsuð" og takturinn gerður skýrari

Niðurstöður

Til að ljúka verkinu er farið eins að með nýliðunina og báðar myndirnar settar saman á tímaásinn. Þá kemur fram þessi mynd sem sýnir:

Þegar hrygningarstofninn vex minnkar nýliðunin og öfugt.


Hrygningarstofn og nýliðun eru í mótfasa eins og reyndar sást strax á fyrstu mynd, en þarna sést það ennþá betur.
Sjaldgæft að sjá svona skýrt samhengi í líffræðilegum gögnum. Engu að síður hafa þeir sem mestu ráða um fiskveiðiráðgjöf í Norðurhöfum valið að hundsa þetta.
Ekki einungis þykjast þeir ekki sjá það samhengi sem hér hefur verið lýst, heldur leitast þeir við í ræðu og riti að halda því fram að túlkun mín sé röng. Það er býsna alvarlegt athæfi að mínu mati, jafnvel refsivert. En meðan ráðamenn halda hlífiskildi yfir ráðgjöfum sínum og almennir stjórnmálamenn láta þetta afskiptalaust verða litlar breytingar.
Þá er til lítils að reyna að vinna heiðarlega og hafa vísindalegan sannleik að leiðarljósi.

Til baka